20. febrúar 2012 - 09:45:16

Ánægja með námskeið í fjarfundi


Við hjá Endurmenntun erum alsæl með frábæra ummæli sem við fengum fyrir námskeið sem var haldið í fjarfundi nýverið. Að halda námskeið eingöngu í fjarfundi er nýtt fyrirkomulag hjá okkur og því er einstaklega gleðilegt að fá svona umsögn.


"Mig langar til að lýsa ánægju minni með fyrirkomulag námskeiðs sem haldið var 10. febrúar s.l. Ég bý á Akureyri og fór á námskeið um kvíða barna og unglinga í fjarfundi. Aðstaðan í Símey var til fyrirmyndar, þrátt fyrir að vera ein á námskeiðinu hér á Akureyri.  Námskeiðið sjálft var einnig mjög gott hjá þeim Sigríði og Berglindi.


En það er fyrirkomulagið sem mig langar helst að hæla. Eingöngu var um fjarfund að ræða, frá átta stöðum á landinu, öllum vel sinnt og þú hafðir ekki á tilfinningunni að þú værir „auka“ eins og svo oft er þegar maður er í fjarbúnaði. Að mínu mati kemur þetta til móts við okkur á landsbyggðinni, að geta sótt námskeið sem eru í boði og þurfa ekki að leggja fram aukalega í ferðakostnað eða eyða tíma í ferðir til og frá.

 

Vonandi verða fleiri námskeið í boði í framtíðinni með þessu fyrirkomulagi.

 

Takk fyrir mig,

Kv. Steinunn Línbjörg Ragnarsdóttir

Umsjónarkennari 4. SLR Giljaskóla, Akureyri"