Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á fjölbreytt úrval námsbrauta á margvíslegum sviðum á grunn- og framhaldsstigi háskóla auk námslína án eininga.

Námsframboð Endurmenntunar mótast fyrst og fremst að þörfum fagstétta og atvinnulífs á ákveðinni þekkingu hverju sinni. Námsbrautir eru ýmist sérhæfðar fyrir ákveðin fagsvið sem margar veita ECTS einingar en aðrar eru öllum opnar.

Lengd námsbrauta getur verið frá einu misseri upp í fjögur misseri og skipulagðar þannig að hægt er að stunda námið samhliða starfi. Alla jafna er kennt í lotum sem þýðir að ein námsgrein er kennd í senn sem lýkur með prófi eða verkefni áður en næsta hefst. Þetta fyrirkomulag hentar fólki sem stundar nám með starfi einstaklega vel. Nokkrar námsbrautir er hægt að sækja bæði í staðnámi og í fjarnámi.

Markmið Endurmenntunar er að vera skilvirkur farvegur fyrir miðlun þekkingar til samfélagsins. Með það að markmiði er unnið með deildum Háskóla Íslands og öðrum samstarfsaðilum.

Starfsfólk Endurmenntunar býr yfir miklum metnaði og mætir væntingum viðskiptavina með ánægju og sveigjanleika. Hjá Endurmenntun er lögð áhersla á árangur og fagmennsku og viljann til að veita fyrirmyndar þjónustu sem byggir á sérþekkingu starfsmanna.

Buisiness meeting
Námsráðgjöf og námstækninámskeið

Hjá Endurmenntun starfar náms- og starfsráðgjafi sem veitir ráðgjöf vegna námsvals og aðstoðar nemendur með sértæka námserfiðleika. Námsráðgjafi er einnig með námstækninámskeið í upphafi náms þar sem meðal annars er rætt um tímastjórnun, skipulagningu, próftækni, prófundirbúning og stjórnun prófkvíða.

Hjá náms- og starfsráðgjafa er hægt að fá endurgjöf á vangaveltur sínar og frekari upplýsingar um námsmöguleika, forkröfur, uppbyggingu náms, væntanlegan afrakstur þess o.fl. Vel ígrundað námsval sem byggir á áhuga, réttum upplýsingum og skilningi getur margfaldað ávinning námsmannsins af námi sínu.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafans er jafnframt að veita nemendum og námshópum leiðsögn og ráðgjöf varðandi bætt vinnubrögð í námi og fleira er lýtur að námstækni, tímastjórnun, um samskipti og skipulagningu í hópastarfi og stjórnun prófkvíða.

Þjónusta námsráðgjafa

 • Ráðgjöf vegna námsvals
 • Námstækninámskeið
 • Fyrirlestur um próftækni, prófundirbúning og stjórnun prófkvíða
 • Aðstoð við nemendur með sértæka námserfiðleika
 • Ráðgjöf um tímastjórnun og skipulagningu
 • Áhugasviðsgreining

Skrifstofa og viðtalstímar

Náms- og starfsráðgjafi Endurmenntunar, Elín Júlíana Sveinsdóttir er með opinn viðtalstíma á mánudögum frá kl. 13 til 15 og á fimmtudögum frá kl. 10 til 12. Einnig er hægt að bóka viðtalstíma hjá henni í síma 525 4444 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið namsradgjof@endurmenntun.is 

Námskeið í námstækni

Náms- og starfsráðgjafi býður nemendum sem eru að hefja nám samhliða starfi hjá Endurmenntun HÍ á námskeið í námstækni þeim að kostnaðarlausu. Hentar þeim sem ekki hafa sótt sambærileg námskeið áður. (Ath. þetta er óskylt námskeiðinu Akademísk vinnubrögð).

Áhersla er lögð á bættar námsvenjur og aukið skipulag í námi. Til umfjöllunar eru þættir eins og tímastjórnun, áætlanagerð, hópverkefnavinna, skipulag, markmiðasetning í námi og framkvæmd markmiða. Ýmsar aðferðir við glósugerð eru kynntar, þ.m.t. Mind Mapping (hugarkortagerð) og glósur í Power Point skjöl. Farið er í lestrar- og minnistækniaðferðir, hvernig próflestur og prófundirbúningur verður best skipulagður og rætt um prófkvíða. Fjallað er um nám á fullorðinsárum í tengslum við sjálfsmynd auk þess sem komið er inn á þætti eins og námsaðstæður (fjölskylda - starf - nám), líðan í námi o.fl. 

Skráning fer fram á heimasíðu Endurmenntunar og í síma 525 4444.

Ertu að hugsa um að fara í nám - hlustaðu þá

Kristín Birna Jónasdóttir fyrrum náms- og starfsráðgjafi Endurmenntunar tók viðtal við Birnu Ragnarsdóttur um nám á fullorðinsárum. Við hvetjum alla sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám að hlusta á viðtalið.

Viðtalinu var útvarpað á Rás 1 og má hlusta á það með því að smella hér

Mat á fyrra námi

Umsækjendur um nám hjá Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) geta sótt um mat á fyrra námi, en það er ekki framkvæmt fyrr en formleg umsókn um nám hefur verið samþykkt. Hægt er að óska eftir lauslegu mati en það er þó ekki bindandi. Umsókn um mat skal senda til verkefnastjóra viðkomandi námsbrautar.

Gögn sem þurfa að fylgja með umsókn

 • Útfyllt umsóknareyðublað.
 • Staðfest afrit af einkunnum frá viðkomandi háskóla.
 • Námskeiðslýsingar frá viðkomandi háskóla frá því ári sem námskeiðin voru tekin.

Reglur um mat á fyrra námi

 • EHÍ getur heimilað að nám við aðrar háskóladeildir eða aðra háskóla verði metið sem hluti af námi EHÍ.
 • Námi eða námskeiðum sem var lokið fyrir 10 árum síðan eða meira, þegar umsókn er send inn, fást ekki metin.
 • Lágmarkseinkunn við mat á námi er 6,0 og lágmarksfjöldi ECTS eininga við mat eru 6 ECTS einingar.
 • Nám eða námskeið sem sótt er um að verði metið þarf að vera að fullu sambærilegt því námi sem viðkomandi hyggst leggja stund á hjá EHÍ og á sama skólastigi.
 • Til þess að umsókn um mat á fyrra námi verði tekin til skoðunar þarf umsækjandi að skila inn rafrænni umsókn til verkefnastjóra námsins. Í umsókninni þarf að koma fram hvaða námskeið umsækjandi sækir um að fá metið og hvaða námskeið umsækjandi hefur lokið og telur sambærilegt. Rafrænt umsóknareyðublað hér að neðan.
 • Verkefnastjóri viðkomandi námsbrautar upplýsir umsækjanda um niðurstöður þegar þær liggja fyrir og eru þær niðurstöður endanlegar af hálfu EHÍ.

Mat á fyrra námi getur tekið allt að tvær vikur og því eru umsækjendur hvattir til að skila inn gögnum sem fyrst.

Umsóknareyðublað - Mat á fyrra námi 

Fjarnám

Samskiptavefurinn Moodle

Moodle er námsumsjónarkefi (Learning management system LMS) sem nemendur námsbrauta Endurmenntunar HÍ fá aðgang að við upphaf náms.

Í kjölfar þess að umsókn í viðkomandi námsbraut hefur verið samþykkt og umsækjandi fengið sent rafrænt inntökubréf í tölvupósti, eru sendar aðgangsupplýsingar á uppgefið netfang í umsóknar.
Leiðbeiningar um ýmsa þætti er snúa að Moodle má finna á vef Kennslumiðstöðvar HÍ - hér 

Upptökur

Í þeim námsbrautum sem nemendum gefst kostur á að að sækja nám í fjarnámi er stuðst við upptökur þar sem nemendur hafa aðgang að fyrirlestrum sem vistaðar eru á námskeiðssíðu viðkomandi námskeiðs, á Moodle.
Forritið Panopto er notað við upptökur á fyrirlestrum á þeim námskeiðum sem kennd eru í fjarnámi. Panopto forritið er á öllum kennslutölvum Endurmenntunar. Forritið er einfalt í notkun og tekur upp fyrirlestra kennara og allt sem fer fram á skjá tölvunnar.

Upptökur eru vistaðar á vefþjóni og birtar á Moodle samskiptavef Endurmenntunar. Nemendur geta því nálgast upptökurnar á vefsvæði námsins með hefðbundnum tölvubúnaði, hvort sem það er í heimahúsi eða á vinnustað. Upptökur eru ávallt aðgengilegar þátttakendum á námstímanum.

Greiðslufyrirkomulag

Eftir að umsókn hefur verið samþykkt er rafrænt inntökubréf sent til umsækjanda. 

Hægt er að semja um greiðslufyrirkomulag áður en nám hefst til dæmis með greiðsludreifingu til allt að 36 mánaða. Almennt gildir það að hámarksupphæð raðgreiðslusamninga er ein milljón króna. Gengið er út frá því að umsækjandi sé jafnframt greiðandi námsins, ef óskað er eftir breytingum á því er viðkomandi beðinn um að hafa samband við gjaldkera okkar um það leyti sem inntökubréf berst. Ef engar óskir koma fram um breytingar á greiðanda eða greiðslufyrirkomulagi birtist greiðsluseðill í netbanka umsækjanda fljótlega eftir inntöku í nám. Fjöldi greiðsluseðla miðast við lengd náms hverju sinni og er greiðsluseðill gefinn út við upphaf hvers misseris.

Vinsamlega athugið að eftir að nám er hafið hefur nemandi skuldbundið sig til að greiða allt námsgjaldið og ekki er hægt að fá það fellt niður eða endurgreitt.

Allar nánari upplýsingar varðandi greiðslufyrirkomulag gefur Helga S. Ormsdóttir gjaldkeri í síma 525-5295 eða á netfangið: helgaso@hi.is 

Vakin er athygli á að ýmis stéttarfélög og margir vinnuveitendur veita góða styrki til náms.

Margar námsbrautir okkar eru lánshæfar hjá Framtíðinni námslánasjóði og einhverjar hjá LÍN.

Einingakerfi

Hjá Endurmenntun er farið eftir ECTS einingakerfinu. ECTS stendur fyrir "European Credit Transfer and Accumulation System" og er notað sem staðall til þess að bera saman og meta námsárangur og frammistöðu nemenda. Námsmenn fá ákveðinn fjölda ECTS-eininga fyrir staðin fög og námsskeið. Eitt námsár jafngildir 60 ECTS-einingum, sem samsvara 1500-1800 klukkutímum í námi. Sjá frekari upplýsingar um einingakerfið hér.

Prófreglur

Hjá Endurmenntun gilda ýmsar reglur og starfshættir varðandi viðveru, einkunnir, kannanir, útskrift og próf. Sjá nánari upplýsingar hér.

Samskiptavefur nemenda

Moodle er námsumsjónarkerfi sem Endurmenntun kýs að nota fyrir nemendahópa sína. Á Moodle er haldið utan um og skipulögð samskipti kennara og nemenda.

Á Moodle eru námsgögn, upptökur og annað efni sem viðkemur náminu vistað. Hægt er setja upp umræðuþræði og rauntímaspjall þar sem nemendur geta varpað fram spurningum til kennara eða samnemenda sinna. Spurningar og svör geta þannig nýst öllum nemendum í einu.

Kennarar geta sett inn leiðbeiningar og tilkynningar til nemenda auk verkefna. Nemendur geta nálgast upplýsingar um lesefni, námsáætlun, verkefnaskil, námsmat og fleira sem við kemur náminu. Moodle útgáfa Endurmenntunar er vistuð hjá Reiknistofnun HÍ.

Verkefnastjóri hvers náms sendir nemendum aðgangsupplýsingar á Moodle um það bil sem nám hefst.

Moodle – leiðbeiningar má finna hér.

Umsögn nemenda

Í gegnum árin hafa fjölmargir nemendur útskrifast frá Endurmenntun af fjölbreyttum námsbrautum.
Hér má lesa brot af umsögnum frá þeim.

Leiðsögunám á háskólastigi

"Eftir útskrift úr leiðsögunámi frá EHÍ ákvað að hella mér út í að leiðsegja í fullu starfi. Bæði hef ég keyrt sjálfur í styttri og lengri túrum og setið með bílstjóra. Námið hefur nýst mér gríðarlega vel og nánast ekkert hefur komið mér á óvart í leiðsögninni. Í stuttu máli get ég sagt að námið í EHÍ innihaldi akkúrat það sem góður leiðsögumaður þarf á að halda þegar á hólminn er komið."

Snorri Ingason, leiðsögumaður frá EHÍ

Jákvæð sálfræði

„Námið hefur farið fram úr væntingum mínum sem voru ágætar fyrir. Í námshópnum hefur skapast mikil samkennd, uppbyggjandi og skemmtileg stemning. Kennarar á heimsmælikvarða, sem margir hverjir eru leiðandi á sínu sviði. Tekið er á flestum sviðum jákvæðrar sálfræði sem ætti að höfða til þverfaglegs hóps fólks. Það er gott jafnvægi á milli fræðilegra og hagnýtra nálgana. Ég mæli eindregið með þessu námi fyrir þá er hafa brennandi áhuga á og vilja finna leiðir til að gera gott betra, hjálpa einstaklingum, hópum, fyrirtækjum, stofnunum eða jafnvel samfélaginu að blómstra”

Ylfa Edith Jakobsdóttir Fenger, ráðgjafi og markþjálfi

Fjölskyldumeðferð - nám á meistarastigi

"Námið hefur fyllilega staðist allar mínar væntingar og meira en það bæði vegna þess hve vel hefur tekist að samþætta fræðilega kennslu, klínisk námstækifæri og handleiðslu. Nemendahópurinn var hæfilega fjölmennur og samanstóð af reynslumiklu fagfólki úr hinum ýmsu greinum sem hefur gefið náminu enn meiri breidd og dýpt. Það er ótrúlega gefandi og lærdómsríkt að kynnast á þennan nána hátt ólíkum starfsháttum, viðhorfum og gildum samnemenda. Reglubundin handleiðsla í litlum hópum þar sem áherslan var á klínisk viðfangsefni sem og leshópar nemenda var líka eitt af því sem upp úr stendur hvað námstækifæri varðar. Námið í heild hefur verið afar krefjandi en svo sannarlega vel þess virði og er nú þegar að nýtast mér mun betur og víðtækar en ég átti von á."

Vilborg G. Guðnadóttir, nemandi í Fjölskyldumeðferð

Nám til löggildingar fasteigna- og skipasala

„Upp í hugann mér varðandi námið Löggilding fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala koma orð líkt og hagnýtt, krefjandi, lærdómsríkt, uppbyggilegt og skemmtilegt. Nám þetta gefur víðari sýn á viðskiptin, bætir þekkinguna og eykur vellíðan í starfi. Nám þetta hefur veitt mér þá lífsfyllingu sem ég leitaðist eftir. Takk kærlega fyrir mig.“

Jórunn Skúladóttir, sölufulltrúi Miklaborg

Hagnýtar upplýsingar fyrir kennara

Hér að neðan má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir kennara frá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands.

Handbók fyrir kennara

Hæfniviðmið – leiðbeiningar fyrir kennara

Hæfniviðmið og sagnorðin

Fyrirlestur sem kennsluaðferð

Viðmið um háskólakennslu

Námsmat og endurgjöf

0