Fréttir

Fornar íslenskar sagnir og sagnamenn

Fornar íslenskar sagnir og sagnamenn

Okkar sívinsælu Íslendingasagnanámskeið hófust í september. Að þessu sinni fara þátttakendur í gegnum Eyrbyggjasögu undir leiðsögn Torfa Tulinius. En fyrir þá sem ekki komust þar að, eða þá sem vilja fræðast enn meira um land okkar til forna, eru tvö spennandi námskeið á dagskrá í október og nóvember:

Leitin að svarta víkingnum byggir á samnefndri bók eftir Bergsvein Birgisson, sem jafnframt er kennari námskeiðsins. Það er haldið í samstarfi við bókaforlagið Bjart. Rýnt verður í ýmislegt í aðferðafræði miðaldasagnfræði og hvernig í bókinni er reynt að brjótast undan hinu klassíska fræðibókaformi. Einnig verður aðalpersónunni Geirmundi heljarskinni fylgt eftir á ævintýralegum ferðum sínum. Þetta er námskeið fyrir alla þá sem eru áhugasamir um islenska þjóðarsál og hvernig hún hefur mótast frá upphafi Íslandsbyggðar. Gaman er að geta þess að samkvæmt nýjustu fréttum stendur til að gera sjónvarpsþáttaröð byggða á bókinni. Verða þættirnir framleiddir af Paramount Pictures og leikstýrt af Norðmanninum Morten Tyldum.

Töfrandi hugmyndaheimur 17. aldar í umsjón Viðars Hreinssonar og Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, leiðir þátttakendur inn í margþætta heimsmynd aldar á mörkum miðalda og nútíðar, í gegnum ritsmíðar litríkra einstaklinga. Koma þar margir við sögu, m.a. Jón Lærði, Jón Daðason frá Arnarbæli og Brynjólfur biskup Sveinsson. Þetta er námskeið fyrir alla þá sem vilja fræðast um hugmyndaheima og handritamenningu fyrri alda í gegnum litríkar persónur og náttúrusýn þeirra tíma.

0