Fréttir

Hvernig verða námskeið til?

Hvernig verða námskeið til?

Á hverju misseri eru hátt í 70 námskeið á sviði menningar, persónulegrar hæfni og tungumála á dagskrá hjá Endurmenntun og það er allur gangur á því hvernig þau verða til.

Könnun á Facebook 

Kennararnir okkar koma oft á tíðum með hugmyndir að nýjum námskeiðum og nýta ýmsar leiðir til að velja viðfangsefni. Illugi Jökulsson var sem dæmi með nokkrar hugmyndir að námskeiðum fyrir komandi misseri og að lokinni könnun sem hann gerði meðal fjölmargra vina sinna á Facebook varð námskeiðið Helstu fraukur Rómaveldis ofan á.  

Tillögur með tölvupóstum 

Þátttakendur námskeiða geta einnig haft mikil áhrif á námskeiðsframboðið. Árlega býðst þeim að svara rafrænni könnun þar sem spurt er um áhugasvið og heillandi kennara og í lok hvers námskeiðs geta þátttakendur komið tillögum sínum á framfæri á matsblöðum. Einnig er talsvert um að við fáum sendar tillögur með tölvupóstum sem og að þátttakendur komi í þjónustuna og óski eftir að fjallað sé um ákveðið viðfangsefni, eins og raunin var um námskeiðið Lög um fjöleignarhús sem verður á dagskrá í október.

Búdapest og Ella 

Starfsfólk Endurmenntunar fylgist vel með því sem er að gerast í samfélaginu. Í tengslum við nýlegar vinsældir Búdapestborgar meðal Íslendinga höfum við sett upp námskeið um borgina fyrir þá sem vilja vera vel undirbúnir fyrir hugsanlega ferð. Við erum einnig í samstarfi við leikhúsin og bjóðum upp á námskeið í tengslum við valdar sýningar þeirra. Stórsveit Reykjavíkur heiðrar Ellu Fitzgerald á aldarafmæli hennar þetta árið með stórtónleikum í september og bjóðum við því námskeið um söngkonuna sem endar á tónleikunum í Hörpu.

0