Fréttir

Leiðsögumennirnir okkar - Boga Kristinsdóttir

Leiðsögumennirnir okkar - Boga Kristinsdóttir

Leiðsögunemar hafa skipað stóran sess í starfsemi Endurmenntunar undanfarin ár. Fyrrum nemendur og núverandi leiðsögumenn eru nú margir hverjir á ferð og flugi um landið með erlenda ferðamenn. Við erum stolt og ánægð með að hafa menntað fullgilda og hæfileikaríka leiðsögumenn sem eru verðugir fulltrúar þeirra sem kynna land og þjóð.

Við ákváðum að hafa samband við nokkra fyrrum nemendur og heyra hvað þeir hafa haft fyrir stafni eftir útskrift. Af Bogu Kristinsdóttur er þetta að frétta:

Hvaða ár útskrifaðist þú sem leiðsögumaður frá EHÍ?
Vorið 2012

Starfar þú sem leiðsögumaður í dag?
Já og hef haft þetta sem heilsársstarf síðastliðin 3 ár.

Sérhæfir þú þig í sérstökum ferðum?
Ég er sjálfstætt starfandi og er mest í ökuleiðsögn með litla hópa. Bæði gönguleiðsögn og almenna leiðsögn. Ég er einnig í ferðum sem leiðangursstjóri með litla hópa, bæði í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Grænlandi.  

Hvað er skemmtilegast við starf leiðsögumannsins að þínu mati?
Fjölbreytileikinn af flóru fólks sem sækir okkur heim og að sjá landið okkar alltaf í nýju ljósi í hverri ferð. Þar sem ég starfa við leiðsögn allt árið, þá er ég einnig alltaf að takast á við fjölbreytt veðurfar.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í starfinu?
Leiðsögn er ábyrgðarmikið starf og krefst mikilla þekkingar og mannlegra samskipta. Það gerir starfið fjölbreytt og áhugavert. Fjölbreytileiki starfsins kom mér á óvart. Síðan ertu aldrei með sömu ferðalangana, nema í stuttan tíma. Maður er stöðugt að taka á móti nýjum hópi og því ný verkefni til að takast á við.

Hvað úr náminu hefur nýst þér best í starfi?
Flest allt, námið var fjölbreytt og tekið á öllu sem viðkemur starfi leiðsögumanns. Skemmtilegar samræður við samnemendur í gegnum námið hafa ekki síður nýst vel. Mikill og fjölbreyttur fróðleikur, sem ég öðlaðist í  náminu.

Ert þú enn í sambandi við samnemendur þína?
Við erum nokkur sem hittumst alltaf af og til í gegnum starfið. Sjáumst á hringnum og í ferðum.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og hvað er það sem gerir hann sérstakan?
Vestfirðir og friðlandið á Hornströndum. Það er töfrum líkast að fara þar um.

Hvað finnst þér vekja mestan áhuga hjá erlendum ferðamönnum á Íslandi?
Fjölbreytni náttúrunnar á Íslandi, veðrið og landslagið.

Getur þú sagt í nokkrum setningum hvað einkennir líf leiðsögumannsins?
Þú býrð í ferðatösku. Þú tekst á við fjölbreytt og krefjandi verkefni á hverjum degi. Þú samtvinnast náttúru landsins. Ísland og landið þitt er skrifstofan þín. Þú gengur óendanlega vel um og berð mikla virðingu fyrir náttúru landsins. Þú hrífur ferðamennina með þér í þetta ferðalag.

Það er mikil eftirspurn eftir faglærðum leiðsögumönnum. Ef þig dreymir um að verða leiðsögumaður þá er enn tækifæri til að slást í hópinn sem hefur nám í haust. Nánari upplýsingar hér:

 

0