Fréttir

Leiðsögumennirnir okkar - Sigrún Eiríksdóttir

Leiðsögumennirnir okkar - Sigrún Eiríksdóttir

Leiðsögunemar hafa skipað stóran sess í starfsemi Endurmenntunar undanfarin ár. Fyrrum nemendur og núverandi leiðsögumenn eru nú margir hverjir á ferð og flugi um landið með erlenda ferðamenn. Við erum stolt og ánægð með að hafa menntað fullgilda og hæfileikaríka leiðsögumenn sem eru verðugir fulltrúar þeirra sem kynna land og þjóð.

Við ákváðum að hafa samband við nokkra fyrrum nemendur og heyra hvað þeir hafa haft fyrir stafni eftir útskrift. Af Sigrúnu Eiríksdóttur er þetta að frétta:

Hvaða ár útskrifaðist þú sem leiðsögumaður frá EHÍ?
Árið 2014

Starfar þú sem leiðsögumaður í dag? 
Ég starfa sem framhaldsskólakennari en er búin að vera í leiðsögn í aukastarfi frá árinu 2012 (en með löngum hléum frá 1996) fyrst og fremst á sumrin.

Sérhæfir þú þig í sérstökum ferðum?
Ég fer mest í hvataferðir (fyrirtækjaferðir) bæði með mjög stóra hópa og minni hópa. Finnst reyndar mjög heillandi að vera með minni hópa og er þess vegna komin í meiraprófsnám til að mega keyra þá sjálf. Maður kynnist minni hópum betur.

Hvað er skemmtilegast við starf leiðsögumannsins að þínu mati? 
Að vera úti í náttúrunni, að hitta skemmtilegt fólk bæði farþega og samstarfsfólk og að hlakka alltaf til að fara í vinnuna til að hitta nýja hópa.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í starfinu? 
Það sem kom mér mest á óvart er að almennt er fólk ekki bara spennt að sjá náttúruna heldur vill það fræðast um okkur sem þjóð. Áður sá ég líka hraun á Íslandi með allt öðrum augum en núna er ég jafn heilluð af hraunbreiðum og ferðamennirnir.

Hvað úr náminu hefur nýst þér best í starfi? 
Mér fannst gaman að læra meira um land, sögu og menningu fyrr og nú. Læra að klæða mig og hætta að kvarta um kulda! Og ekki síst að læra skyndihjálp svo núna óttast ég ekki lengur að koma að slysum. Öll námskeiðin voru áhugaverð.

Ert þú enn í sambandi við samnemendur þína?  
Já, við hittumst reglulega. Svo erum við með Facebook síðu og ráðfærum okkur við hvert annað um starfið og bendum á hvert annað í ýmis störf.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og hvað er það sem gerir hann sérstakan?   Jökulsárlón er fallegur og heillandi staður sem vekur alltaf hrifningu hjá mínum ferðamönnum. Þingvellir heilla mig líka alltaf sama hversu oft ég kem þangað. Svo er ég heilluð af fossum þar sem ég elska vatn.

Hvað finnst þér vekja mestan áhuga hjá erlendum ferðamönnum á Íslandi?  
Í náttúrunni: Allt þetta vatn; heitt og kalt út um allt og hraunið. Svo eru þeir auðvitað heillaðir af góða vatninu og hreina loftinu. Íslendingar: Þeir tala oft um að fólkið sé opnara en þeir héldu og maturinn betri.

Getur þú sagt í nokkrum setningum hvað einkennir líf leiðsögumannsins? 
Fjölbreytileikinn og ævintýrin. Þó maður fari á sömu staði þá er upplifunin aldrei eins með ólíkum hópum. Maður þarf að vera úrræðagóður, hafa leiðtogahæfileika og vera stundvís og að sjálfsögðu hafa góða skapið alltaf með í för því þá verður ferðin svo miklu skemmtilegri.

Það er mikil eftirspurn eftir faglærðum leiðsögumönnum. Ef þig dreymir um að verða leiðsögumaður þá er enn tækifæri til að slást í hópinn sem hefur nám í haust. Nánari upplýsingar hér:

0