Fréttir

Leiðsögumennirnir okkar - Snorri Ingason

Leiðsögumennirnir okkar - Snorri Ingason

Leiðsögunemar hafa skipað stóran sess í starfsemi Endurmenntunar undanfarin ár. Fyrrum nemendur og núverandi leiðsögumenn eru nú margir hverjir á ferð og flugi um landið með erlenda ferðamenn. Við erum stolt og ánægð með að hafa menntað fullgilda og hæfileikaríka leiðsögumenn sem eru verðugir fulltrúar þeirra sem kynna land og þjóð.

Við ákváðum að hafa samband við nokkra fyrrum nemendur og heyra hvað þeir hafa haft fyrir stafni eftir útskrift. Af Snorra Ingasyni er þetta að frétta:

Hvaða ár útskrifaðist þú sem leiðsögumaður frá EHÍ?
Ég er úr 2012 útskriftarárgangnum. 

Starfar þú sem leiðsögumaður í dag?
Frá útskrift hef ég unnið að leiðsögn í fullu starfi.

Sérhæfir þú þig í sérstökum ferðum?
Ég er mest á láglendi, bæði sem ökuleiðsögumaður og í sitjandi leiðsögn. Einnig hef ég tekið allnokkrar gönguleiðsagnarferðir. 

Hvað er skemmtilegast við starf leiðsögumannsins að þínu mati?
Ótrúleg fjölbreytni. Fólkið sem ég hitti er hvaðan af úr heiminum og ég hef eignast marga vini. Ástríða mín í að segja frá landinu okkar skín líka í gegn og hef ég oft fengið lof fyrir það. Við sitjum hér á einum verðmætasta demanti heims, með náttúruna okkar. 

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í starfinu?
Námið í EHÍ kom eiginlega í veg fyrir það, og bjó mig vel undir það sem koma skyldi. Það sem stendur þó uppúr er hversu mikið ferðamennirnir hafa hjálpað mér að meta íslenska náttúru enn betur. Ég verð líka að nefna norðurljósin, sem áður en ég fór að leiðsegja, voru sjálfsagður hlutur. Í dag kæta þau mig mikið þegar þau birtast og tár sjást á hvarmi ferðamannanna. Gleðitár, að sjálfsögðu. 

Hvað úr náminu hefur nýst þér best í starfi?
Erfitt er að nefna eitthvað eitt sérstaklega. Það má segja að námið í heild sinni nýtist mér mjög vel. 

Ert þú enn í sambandi við samnemendur þína?
Já, marga hverja. Sérstaklega þá sem eru að leiðsegja. Við skiptumst á skoðunum og ráðum. 

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi og hvað er það sem gerir hann sérstakan?
Vestfirðir. Þar er veröld sem býr yfir þvílíkum töfrum sem á sér enga líka.

Hvað finnst þér vekja mestan áhuga hjá erlendum ferðamönnum á Íslandi?
Fyrst og fremst náttúran. Margir tala líka um gestrisni og kurteisi Íslendinga. 

Getur þú sagt í nokkrum setningum hvað einkennir líf leiðsögumannsins?
Starf leiðsögumanns er flökkulíf, allavega þeirra sem sækja í lengri ferðir. Starfandi við leiðsögn á ársgrundvelli leyfir mér að sjá landið í sumar og vetrarbúningi. Ný upplifun, hvern dag, fyllir öll vit orku. Starf leiðsögumannsins er ekki fjölskylduvænt en með réttu skipulagi er hægt, með góðu móti, að sameina vinnu og fjölskyldu. Það er skemmtilegt að vera leiðsögumaður.

Það er mikil eftirspurn eftir faglærðum leiðsögumönnum. Ef þig dreymir um að verða leiðsögumaður þá er enn tækifæri til að slást í hópinn sem hefur nám í haust. Nánari upplýsingar hér:

0