Fréttir

Ungt fólk og Endurmenntun

Ungt fólk og Endurmenntun

Ungmenni eru hópur sem við hjá Endurmenntun viljum gjarnan sinna betur, enda höfum við í gegnum tíðina fengið fyrirspurnir um námskeið sem henta aldurshópnum frá 12 ára og eldri. Á vormisseri munum við því brydda upp á þeirri nýjung að bjóða námskeið sem sérstaklega eru ætluð ungmennum. Um er að ræða tvö námskeið til að byrja með en mögulega mun þeim fjölga síðar ef viðtökur verða góðar.

Skemmtileg skrif – námskeið fyrir ungt fólk er ritlistarnámskeið sem ætlað er ungu fólki, 14 ára og eldra. Þar mun Kristján Hreinsson, skáld og heimspekingur, leiða hópinn inn á ritvöllinn. Meðal annars verður farið yfir hvernig nálgast má kjarnann í hugsun sinni og virkja sköpunargleðina til krefjandi verka, hvort sem um er að ræða skáldverk eða ritgerðir.  Ungt fólk sem hefur gaman af skrifum ætti ekki að láta þetta tækifæri framhjá sér fara! Námskeiðið er byggt á hinu vinsæla námskeiði Skáldleg skrif, sem Kristján hefur oftsinnis haldið hjá okkur fyrir fullorðna.

Betri svefn – hamingjusamari unglingar er námskeið sem ætlað er unglingum á aldrinum 12-18 ára og forráðamönnum þeirra. Þar verður m.a. fjallað um mikilvægi svefns fyrir heilsu og líðan, hvað skiptir máli fyrir góðan nætursvefn og gefin hagnýt ráð. Kennari á námskeiðinu er Erla Björnsdóttir sálfræðingur, sem hefur í doktorsnámi sínu í líf- og læknavísindum rannsakað tengsl svefns við andlega og líkamlega heilsu ásamt því að sérhæfa sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi.

Við bendum á að fjölmörg önnur námskeið gætu einnig höfðað til ungmenna ekki síður en fullorðinna. Af mörgu er að taka og úrvalið fjölbreytt, en nefna má t.d. námskeiðin DNA, erfðir og þróun lífsins, Rocky Horror í Borgarleikhúsinu, Undraveröld gimsteina og Lakkrís … rótin sæta.

0