Fréttir

Vellíðan og heilsueflandi samfélag

Vellíðan og heilsueflandi samfélag

Föstudaginn 22. september héldum við, í samvinnu við Embætti landlæknis og menntavísindasvið Háskóla Íslands, málþing um vellíðan og heilsueflandi samfélag. Tilefnið var koma hins heimsþekkta fræðimanns Richard Ryan til landsins, en hann er talinn vera einn af áhrifamestu sálfræðingum okkar tíma. Ryan kom hingað til að kenna í diplómanáminu í jákvæðri sálfræði hjá okkur í Endurmenntun. Málþingið var haldið í Hátíðarsal Háskóla Íslands og var salurinn þétt setinn enda fullbókað á viðburðinn.

Ryan er annar upphafsmaður Self-determination theories (SDT) eða sjálfsákvörðunarkenninga, sem eru kenningar um áhugahvöt (motivation) og vellíðan (well-being). Fræðimenn um allan heim hafa beitt kenningum Ryan í rannsóknum sínum á ýmsum sviðum félagsvísinda, svo sem uppeldis og menntunar, heilsueflingar, markþjálfunar og stjórnunar svo eitthvað sé nefnt.

Á málþinginu var fjallað um hvernig grundvallarþættir kenninganna; sjálfræði, hæfni og tengsl stuðla að velgengni og vellíðan. Farið var yfir hvernig skólinn, heilbrigðiskerfið og samfélagið getur stutt okkur í því að efla heilsu og bæta líðan. Einnig var rætt um hvers vegna það er farsælt að vinna með áhugahvöt fólks til að styðja það við að ná markmiðum sínum, hvort sem er til að læra nýja færni, breyta hegðun til að bæta heilsu eða almennt til að njóta lífsins betur.

Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna.

0