Fjölskyldumeðferð - diplómanám á meistarastigi

Verð 1.590.000 kr

Fjölskyldumeðferð - diplómanám á meistarastigi

Verð 1.590.000 kr
Prenta
Námið er tveggja ára/fjögurra missera nám, sem hefst 3. sept. 2018 og kennt er í þremur vikulotum á hverju misseri, samtals 12 lotur.
Unnið verður með fræðileg og klínisk verkefni á milli lota. Nemendur verða í samfelldri hóphandleiðslu í litlum hópum meðan á náminu stendur, þar sem unnið er með efnivið úr starfi á vettvangi.
Ekki verður um val milli námskeiða að ræða og allir nemendur fylgja sama skipulagi.

Upptaka frá kynningarfundi 16. maí
Kennarar verða bæði innlendir og erlendir háskólakennarar og starfandi fjölskyldufræðingar (fjölskylduþerapistar). Nánari upplýsingar um námið og kennara má finna í námsvísi.
Kennslustjóri námsins er Helga Þórðardóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduþerapisti.

Í samstarfi við Félagsráðgjafardeild HÍ, Félag fagfólks í fjölskyldumeðferð og Rannsóknarstofu í barna-og fjölskylduvernd.

Nám er hafið og hefst að nýju á haustmisseri 2020
Námið er ætlað einstaklingum sem lokið hafa háskólanámi í heilbrigðis- eða félagsvísindum og starfa á sviði fjölskylduþjónustu, fræðslu, stuðnings og meðferðar.

Fjölskyldumeðferð er meðferð þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskyldu-heildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi.
Þessi skilgreining byggist á hugmyndinni um fjölskyldu sem kerfi og vitund um að þegar einstaklingur breytist hefur það áhrif í fjölskyldutengslunum og öfugt, að hver einstaklingur verður fyrir áhrifum af því sem gerist í lífi annarra í sömu fjölskyldu eða tengslaneti. Það er metið eftir aðstæðum og í samráði hvenær og hverjir taka beinan þátt í meðferðinni.


Markmið:
Markmið námsins er að koma til móts við þörfina fyrir sérhæfða þekkingu á sviði fjölskyldumeðferðar og að efla fjölskyldunálgun í félags- og heilbrigðisþjónustu.

Í náminu öðlast nemendur fræðilega og hagnýta þekkingu í fjölskyldufræðum ásamt klíniskri færni.

Að loknu námi munu nemendur meðal annars hafa:
• Þekkingu á fræðilegri þróun fjölskyldumeðferðar og kenningagrunni
• Persónulega og faglega færni til að veita fjölskyldumeðferð
• Geta beitt faglegri þekkingu í gagnvirkri (reflective) greiningar- og meðferðarvinnu
• Færni til að finna lausnamunstur í samskiptakerfum
• Þekkingu á þróun íslenskra fjölskyldna og aðstæðum þeirra í dag
• Innsýn í rannsóknarniðurstöður um lýðheilsu (health statistics) og fjölskylduheilbrigði (family health)

Forkröfur:
Námið er ætlað einstaklingum sem lokið hafa háskólanámi í heilbrigðis- eða félagsvísindum og starfa á sviði fjölskylduþjónustu, fræðslu, stuðnings og meðferðar.
Krafist er þriggja ára grunnmenntunar á háskólastigi (t.d. BA) á sviði heilbrigðis- eða félagsvísinda eða annarrar sambærilegrar menntunar.

Auk þess skulu umsækjendur:
• Hafa að lágmarki tveggja ára starfsreynslu á heilbrigðis- eða félagsvísindasviði
• Hafa verið í handleiðslu og/eða eigin meðferð. Ef umsækjandi hefur orðið fyrir áfalli og hefur ekki leitað sér faglegrar aðstoðar eða er að kljást við andlega-eða samskiptaerfiðleika, er gerð krafa um að viðkomandi sæki að lágmarki sex meðferðartíma á fyrra ári námsins, hjá sérfræðingi
• Vera í starfi sem lýtur að heilbrigðis- eða félagsvísindasviði á meðan á námi stendur
• Hafa samþykki yfirmanns og/eða stofnunar til að stunda námið samhliða starfi og nota efnivið úr starfi

Allir umsækjendur sem uppfylla inntökuskilyrði verða boðaðir í viðtal.

Námið er lánshæft fyrir skólagjöldum hjá LÍN og hjá Framtíðinni námslánasjóði.

Frekari upplýsingar

Hulda Mjöll Hauksdóttir, verkefnastjóri námsins, netfang: hulda@hi.is, sími: 525-4924.
Hulda er með viðtalstíma alla virka daga frá kl. 9:30 til 11:30.

Umsagnir

"Námið hefur fyllilega staðist allar mínar væntingar og meira en það bæði vegna þess hve vel hefur tekist að samþætta fræðilega kennslu, klínísk námstækifæri og handleiðslu. Nemendahópurinn var hæfilega fjölmennur og samanstóð af reynslumiklu fagfólki úr hinum ýmsu greinum sem hefur gefið náminu enn meiri breidd og dýpt. Það er ótrúlega gefandi og lærdómsríkt að kynnast á þennan nána hátt ólíkum starfsháttum, viðhorfum og gildum samnemenda. Reglubundin handleiðsla í litlum hópum þar sem áherslan var á klínísk viðfangsefni sem og leshópar nemenda var líka eitt af því sem upp úr stendur hvað námstækifæri varðar. Námið í heild hefur verið afar krefjandi en svo sannarlega vel þess virði og er nú þegar að nýtast mér mun betur og víðtækar en ég átti von á. "
Vilborg G. Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur
deildarstjóri barna- og unglingageðdeildar BUGL og nú handleiðari í náminu
0