Reykholt í ljósi fornleifanna

Verð 19.700 kr

Reykholt í ljósi fornleifanna

Verð 19.700 kr
Prenta
Nýtt
Þri. 26. og mið. 27. mars kl. 20:00 - 22:00
Dr. Guðrún Sveinbjarnardóttir
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Reykholt í Borgarfirði er best þekkt fyrir búsetu Snorra Sturlusonar á fyrri hluta 13. aldar. Þessu tímabili er m.a. lýst í Sturlunga sögu sem er svo til samtíma atburðunum sem lýst er. Fornleifarannsóknir hafa varpað ljósi á búsetu staðarins frá um 1000 og fram á 19. öld. Farið verður yfir helstu niðurstöður og hvernig sumar þeirra samlagast ritheimildum.

Markmiðið er að gefa innsýn inn í það hvernig fornleifafræðin getur varpað ljósi á þróun búsetu á hinum sögufræga stað Reykholti í Borgarfirði. Byrjað verður á að gefa stutt yfirlit yfir helstu aðferðir fornleifafræðinnar sem stuðst var við. Þá verður rakið það helsta sem kom í ljós á uppgraftarsvæðinu og fléttað inn í það helstu niðurstöðum annarra rannsókna á staðnum eins og t.d. umhverfisrannsókna sem geta varpað ljósi á hvernig aðstæður breyttust í aldanna rás. Leitast verður við að setja það sem fannst í Reykholti í víðara samhengi. Að lokum verða byggingaleifarnar sem komu í ljós bornar saman við frásagnir í Sturlunga sögu af húsakosti í Reykholti á 13. öld.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Helstu aðferðir fornleifafræðinnar með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna.
• Það helsta sem fannst við uppgröft á bæjar- og kirkjustæðinu í Reykholti og fléttað inn í það niðurstöðum t.d. úr umhverfisrannsóknum.
• Minjarnar í víðara samhengi, bæði á Íslandi og annars staðar á Norður Atlantshafssvæðinu.
• Húsalýsingar í Sturlunga sögu sem verða bornar saman við þær byggingaleifar sem grafnar voru upp.

Ávinningur þinn:

• Innsýn í vinnubrögð fornleifafræðinga.
• Þekking á búsetu í Reykholti í Borgarfirði frá upphafi byggðar þar.
• Innsýn inn í hliðargreinar fornleifafræðinnar svo sem umhverfisrannsóknir.
• Innsýn inn í hvernig nota má ritheimildir samhliða fornleifaheimildum.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á sögu og því hvernig fornleifafræði getur varpað ljósi á hana.

Kennsla:

Guðrún Sveinbjarnardóttir er með doktorspróf frá University of Birmingham. Hún hefur gegnt rannsóknarstöðum við sama háskóla, University College London og Þjóðminjasafn Íslands auk þess sem hún hefur kennt við University College London, Háskóla Íslands og Cambridge University. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum, og stjórnað fornleifarannsóknum á Íslandi. Umfangsmestar eru rannsóknirnar í Reykholti en þeim lauk árið 2007.

Aðrar upplýsingar:

Fjallað hefur verið um rannsóknirnar í Reykholti í fjölmörgum greinum bæði á Íslandi og erlendis.
Tvær bækur hafa verið gefnar út á ensku með niðurstöðum þeirra: Guðrún Sveinbjarnardóttir 2012. Reykholt.
Archaeological Investigations at a High Status Farm in Western Iceland. Snorrastofa & Þjóðminjasafn Íslands. Sama 2016. Reykholt. The Church Excavations. Þjóðminjasafn Íslands, Snorrastofa & Háskólaútgáfan. Væntanleg er bók á íslensku um sama efni: Guðrún Sveinbjarnardóttir. Reykholt í ljósi fornleifanna. Snorrastofa & Háskólaútgáfan.

0