Tæknin við að segja sögu

Verð 54.500 kr

Tæknin við að segja sögu

Verð 54.500 kr
Prenta
Einungis eitt sæti laust.
Nýtt
Fim. 21. og 28. jan. kl. 19:00 - 22:00
Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta og Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn hf.
Endurmenntun, Dunhaga 7.

UPPLÝSINGAR UM ÁHRIF COVID-19 Á STARFSEMI EHÍ

Námskeiðið er hugsað fyrir þá sem vilja tileinka sér þá tækni að segja sögu til að koma boðskap áleiðis, skapa samkennd, til hvatningar og fleira. Sumum er í blóð borið að koma boðskap áleiðis með því að segja sögu, öðrum ekki en það er vissulega hægt að þjálfa upp þessa tækni. Um er að ræða praktískt og skemmtilegt námskeið með líflegu kennarateymi sem hefur þjálfað fjölda fólks í framkomu og frásögn á síðustu árum.

Að kunna þá list að segja skemmtilega frá, svo skemmtilega að fólk færi sig fram á sætisbrúnina og hangi á hverju orði sem fellur af vörum þínum, er öfundsverður eiginleiki sem getur gagnast hvar sem maður kemur. Frásagnargáfa fellur í flokk með svokölluðum mjúkum hæfileikum (e. soft skills) sem sumir fá í vöggugjöf en allir geta tileinkað sér. Æ oftar er horft til slíkra hæfileika þegar fólk er skipað í forystusveit, hvort sem er í stjórnkerfinu, atvinnulífinu eða menningarlífinu.

Á námskeiðinu munu þátttakendur fá tækifæri til að æfa sig og fá uppbyggjandi endurgjöf á framkomu sína, líkamsbeitingu, tjáningu og nærveru við mismunandi aðstæður.

Andrés og Þórhallur munu beita fjölbreyttum og praktískum kennsluaðferðum til að gera þátttakendur hæfari í að koma fram og heilla aðra með sannfæringarkrafti og lifandi sögum.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Frásagnarlist (e. storytelling) frá mörgum ólíkum hliðum. Hvernig hún nýtist bæði við formlegar og óformlegar aðstæður, á opinberum vettvangi og í góðum félagskap vina og fjölskyldu.
• Hvernig við getum leyft okkur að taka meira pláss við ýmsar aðstæður og þannig gefið meira af okkur til annarra en við hefðum ella færi á.
• Hvernig maður byggir upp sögu, hvernig maður finnur kjarnann og hvernig maður heldur athygli allra viðstaddra og nýtur þess um leið.
• Ýmsar praktískar aðstæður þar sem sögur og vilji til að ramma inn verkefni og fundarefni geta gert þig að leiðtoga sem fólk skilur, virðir og heillast af.

Ávinningur þinn:

• Þú munt eiga auðvelt með að tjá þig á fundum og eiga gefandi samskipti við samstarfsmenn og fólk sem þú mætir í dagsins önn.
• Þú verður öflugari og sjálfsöruggari í að takast á við krefjandi aðstæður.
• Þú munt kunna að setja boðskap þinn og efni í form sem nær til flestra eða alla vega þannig að nái til þeirra sem hlýða á þig hverju sinni.
• Sýnileiki þinn mun aukast og tengslanetið stækka þegar fólk sér hversu mikilli ástríðu og hugmyndum þú hefur að miðla.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er fyrir stjórnendur og aðra sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök og vilja nýta sögur til hvatningar, til að skapa ákveðin hughrif eða til að fylkja fólki um stefnu eða markmið.

Kennsla:

Andrés Jónsson er eigandi Góðra samskipta og hefur starfað við almannatengsl og krísustjórnun frá árinu 2004. Þar áður starfaði hann í fjölmiðlum,
m.a. við dagskrárgerð á Rás 1 og Rás 2 og sinnti blaðamennsku við ýmis tímarit og blöð. Andrés kom að stofnun fréttavefsins Eyjunnar árið 2007 og gegndi þar stöðu ritstjóra. Andrés hefur haldið fjölmörg námskeið um almannatengsl, tengslamyndun, sýnileika og fjölmiðlaframkomu. Hann kenndi námskeiðið
Miðlun upplýsinga í MBA-námi Háskóla Íslands um fimm ára skeið, ásamt Þórhalli Gunnarssyni. Andrés hefur þjálfað fjölmarga stjórnendur fyrir kynningar og lykilerindi. Andrés lærði frásagnarlist (e. storytelling) hjá IDEO hönnunarfyrirtækinu.

Þórhallur Gunnarsson er framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn hf. Hann er lærður leikari með MA-gráðu í sjónvarpsfréttamennsku frá Goldsmiths-háskólanum í London. Hann hefur starfað hjá Skjá einum, Stöð 2 og RÚV, þar sem hann var m.a. dagskrárstjóri og ritstjóri Kastljóss frá 2005-2010. Hann einbeitti sér síðar að dagskrárgerð, framleiðslu og hugmyndaþróun fyrir RÚV en síðla árs 2012 gekk hann til liðs við framleiðslufyrirtækið Sagafilm þar sem hann starfaði sem yfirmaður sjónvarps- og kvikmyndadeildar. Hann kenndi námskeiðið
Miðlun upplýsinga í MBA-námi Háskóla Íslands um fimm ára skeið, ásamt Andrési.

Aðrar upplýsingar:

Þátttakendur þurfa að mæta með fartölvur. Áður en námskeiðið hefst eiga þátttakendur að senda kennurum póst og segja þeim frá þeirri þekkingu eða ástríðu sem þeir búa yfir og vilja miðla. Þetta verður kynnt nánar í sérstökum pósti til þátttakenda, þegar nær dregur.

Fyrirvari
Ef óviðráðanlegar aðstæður, s.s. sóttvarnarreglur, koma í veg fyrir að hefðbundin kennsla geti farið fram í húsnæði Endurmenntunar á auglýstum námskeiðstíma verður brugðist við með því að:
A færa námskeiðið og kynna skráðum þátttakendum nýjar dagsetningar með eins góðum fyrirvara og unnt er,
eða
B kenna námskeiðið sem fjarnámskeið í gegnum ZOOM á áður auglýstum tíma.

Komi til ofangreindra breytinga fá skráðir þátttakendur allar nauðsynlegar upplýsingar sendar í tölvupósti og geta þeir þá tekið ákvörðun um skráningu sína í ljósi breyttra forsenda.

Styrkur
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

0