Refir í náttúru Íslands

Verð 15.900 kr

Refir í náttúru Íslands

Verð 15.900 kr
Prenta
Nýtt
Mán. 2. mars kl.19:00 - 22:00
Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Í umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga hafa dýr á norðurslóðum oft borið á góma. Fáir vita að ein þeirra tegunda sem sérstaklega er fylgst með í þessum málaflokki er heimskautarefurinn, sama tegund og refurinn okkar íslenski. Refurinn er eina upprunalega landspendýr landsins og var til staðar á landinu löngu áður en landnám manna hófst. Íslendingar hafa stundað refaveiðar alla tíð, ýmist vegna hins verðmæta feldar eða til að hefna fyrir meintar búsifjar af hans völdum. Almenn þekking á stöðu íslenska refastofnsins er hinsvegar af skornum skammti, þrátt fyrir meira en þúsund ára sambúð manna og refa.

Á námskeiðinu verður sagt frá uppruna og einangrun íslenska refastofnsins og stöðu hans í vistkerfum landsins. Þekking, sem orðið hefur til með samstarfi í veiðum og rannsóknum, verður kynnt og fjallað verður um helstu þætti sem hafa áhrif á stofnbreytingar. Rætt verður um félagskerfi refa, fæðuval og tímgunarlíffræði og hvaða áhrif þessir þættir geta haft á stofnbreytingar hérlendis og víðar. Eins og hjá öðrum rándýrum norðurslóða eru lífshættir refsins tengdir árstíðasveiflum í fæðuframboði. Víða á útbreiðslusvæðum tegundarinnar hefur verið sýnt fram á að loftslagsbreytingar hafi bein og óbein áhrif á afkomu og heilbrigði dýra. Íslenski refurinn virðist standa sterkar að vígi hvað varðar neikvæð áhrif loftslagsbreytinga en frændur hans á hinum norðurlöndunum. Ekki er þó allt sem sýnist og hættur leynast víða enda þekking á afleiðingum hlýnunar og súrnun sjávar fyrir lífríki lands af skornum skammti. Íslenskir refir sem hafa aðgang að fæðu úr sjó eru farvegur næringar- og eiturefna frá sjó í land. Nú þegar hafa fundist talsvert há gildi af eiturefnum í líkama íslenskra refa og er talið að þau komi úr sjávardýrum. Í lokin verður umræða um stöðu íslenska refsins og annarra villtra dýra hvað varðar lög og náttúruvernd. Áhersla á íslenska refinn hefur að mestu verið á veiðistjórnun og hvernig sé hægt að lágmarka meint tjón af hans völdum. Minna hefur verið fjallað um það hérlendis hvort refir gegni ekki mikilvægu hlutverki sem vísir á hafrænar breytingar af völdum loftslagsbreytinga á norðurslóðum.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Uppruna og sögu íslenska refsins
• Helstu einkenni og sérkenni íslenska refsins
• Stöðu íslenska refastofnsins hérlendis og á heimsvísu
• Takmarkandi og stýrandi þætti í stofnvistfræði refa
• Áhrif loftslagsbreytinga á rándýr norðurslóða

Ávinningur þinn:

• Þekking á eina upprunalega landspendýri Íslands
• Aukinn skilningur á stöðu og mikilvægi rándýra í vistkerfum
• Innsýn í lagalega stöðu villtra dýra á Íslandi og tenging við náttúruvernd og dýravelferð
• Vitneskja um mikilvægi heimskautarefsins sem vísir á hafrænar breytingar af völdum hlýnunar

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á dýrum, náttúrufræði og náttúruvernd. Einnig veiðmönnum og ljósmyndurum sem ferðast sérstaklega til að nálgast villt dýr. Jafnframt er námskeiðið tilvalið fyrir kennara og nemendur í náttúrufræðum, leikna og lærða. Ömmur og afar sem láta sig náttúru, umhverfi og dýralíf varða eru velkomin á námskeiðið.

Kennsla:

Ester Rut Unnsteinsdóttir er dýravistfræðingur að mennt og hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá árinu 2013. Þar sér hún m.a. um vöktun á íslenska refastofninum, meðal annars á Hornströndum þar sem hún hefur fylgst með lífsháttum refa í yfir 20 ár. Ester Rut er jafnframt með kennsluréttindi í náttúrufræðum á framhaldsskólastigi og starfaði við kennslu á unglingastigi grunnskóla árin 1999-2002 og sem aðstoðarkennari í Háskóla Íslands á árunum 2003-2012. Árið 2010 stóð hún, ásamt samstarfsaðilum, að opnun Melrakkaseturs Íslands í Súðavík, fræðasetri um íslenska refinn. Ester gegndi þar stöðu forstöðumanns frá stofnun árið 2007 til ársins 2013.

Aðrar upplýsingar:

Ef öll fjögur námskeiðin um spendýr í náttúru Íslands eru sótt á misserinu er veittur 20% afsláttur en hann er reiknaður af verði síðasta námskeiðsins.

Refir í náttúru Íslands - Þetta námskeið
Selir í náttúru Íslands - Mán. 9. mars kl. 19:00 - 22:00
Hvalir í náttúru Íslands - Mán. 27. apríl kl. 19:00 - 22:00
Hreindýr í náttúru Íslands - Mán. 4.maí kl.19:00 - 22:00

Til að virkja afsláttinn þá þarftu að taka það fram í athugasemdum við skráningu að þú sækir öll námskeiðin.

0