Jarðsaga Íslands

Verð 15.900 kr

Jarðsaga Íslands

Verð 15.900 kr
Prenta
Nýtt
Mán. 18. nóv. kl.19:00 - 22:00
Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Á námskeiðinu verður fjallað um myndun Íslands og mótun í gegnum jarðsöguna. Tilurð landsins og tilvist byggist á gliðnun hinna stóru jarðskorpufleka Norður-Ameríku og Evrasíu en hvenær er fyrst hægt að tala um Ísland á þessum flekaskilum? Hvernig tengist hinn svokallaði heiti reitur þessari sögu? Hve mikið hefur landið breyst í tímans rás, og ekki síst, hvað í landslaginu og umhverfinu segir okkur alla þessa áhugaverðu sögu?

Jarðsaga Íslands er afar áhugavert umfjöllunarefni, sem fengið hefur minni athygli en tilefni er til. Jarðsagan hér er saga óslitinnar og fjölbreyttrar landmótunar, bæði upphleðslu og rofs. Í grunninn verður nýtt berg til í gosbeltum landsins þaðan sem rek jarðskorpuflekanna færir það með tímanum út að jöðrum landsins líkt og á risastóru færibandi. Inn í jarðsöguna fléttast flekahreyfingar meginlandanna síðustu tugmilljóna ára, umfangsmiklar loftslagsbreytingar og upphaf ísaldarinnar, samspil heits reits og flekaskila, færsla gosbeltanna, jökul- og sjávarrof og fleira.

En þótt jarðsagan sé samfellt ferli eru menjar um hana slitróttar, á tíðum jafnvel ruglingslegar. Jarðsagan birtist okkur í raun líkt og bók þar sem suma kafla vantar á meðan aðrir eru illlæsilegir. Til að átta okkur almennilega á framvindunni þurfum við því að rýna vel í það sem er þó aðgengilegt okkur. Með því að draga saman mismunandi þætti jarðsögunnar færumst við því nær því að sjá mótun og þróun Íslands sem eina heildstæða mynd.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Opnun Atlantshafsins - hvað vitum við um upphafið sem leiddi til myndunar landsins?
• Sögu heita reitsins, hvað er hann, hvaðan kemur hann og hvert er hann að fara? Eða er hann kannski ekkert á leiðinni yfir höfuð?
• Eldvirkni á Íslandi, hefur hún breyst í tímans rás? Hvernig hafa rek- og gosbelti landsins þróast í gegnum tíðina?
• Hvað steingervingar og setlög segja okkur um loftslag fyrri tíma og þróun landmótunar.
• Ísöldina á Íslandi, hvenær hófst hún og hvernig stendur á því að einhverjar merkustu ísaldarmenjar jarðar finnist hér á landi?

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á náttúrunni sem skerpir á upplifuninni af því að ferðast um Ísland.
• Ánægjan af því að geta lesið frekar í landið og skilið myndun þess og mótun, einkum hvað varðar uppruna landsins og þróun í gegnum jarðsöguna.

Fyrir hverja:

Fyrir allt áhugafólk um jarðfræði; náttúruunnendur, göngufólk og leiðsögumenn. Fyrirfram þekking á jarðfræði er ekki nauðsynleg.

Kennsla:

Snæbjörn Guðmundsson er jarðfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur haft umsjón með og kennt námskeið við Jarðvísindadeild HÍ og EHÍ. Hann er höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands sem kom út hjá Forlaginu sumarið 2015, en í henni er fjallað á skýran og greinargóðan hátt um jarðfræði 100 áfangastaða á Íslandi. Auk þess hefur Snæbjörn um árabil verið virkur í vísindakennslu og vísindakynningu til almennings.

0