Jökla- og loftslagsbreytingar á Íslandi - STAÐ- OG FJARNÁMSKEIÐ

Verð snemmskráning 14.500 kr Almennt verð 15.900 kr

Jökla- og loftslagsbreytingar á Íslandi - STAÐ- OG FJARNÁMSKEIÐ

Verð snemmskráning 14.500 kr Almennt verð 15.900 kr
Prenta
Snemmskráning til og með 6. október
Mið. 16. okt. kl. 19:30 - 21:30
Hrafnhildur Hannesdóttir doktor í jarðvísindum frá Háskóla Íslands
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Á námskeiðinu verður farið yfir þær breytingar sem hafa orðið á jöklum landsins vegna hlýnandi loftslags og fjallað um hvaða þættir hafa mest áhrif á vöxt og viðgang þeirra.

Jöklar á Íslandi hafa verið á hröðu undanhaldi frá því fyrir lok 20. aldar en þeir bregðast hins vegar ekki allir eins við loftslagsbreytingum. Tekin verða dæmi um sögu jöklabreytinga við sunnanverðan Vatnajökul sem og frá öðrum vinsælum jökulsporðum í alfaraleið.

Jöklar á Íslandi bregðast hratt við breytingum í loftslagi og auðvelt aðgengi að þeim veitir einstakt tækifæri til þess að skoða tengsl jökla- og loftslagsbreytinga. Rætt verður um þróun jöklanna allt frá því á litlu ísöld (1450-1900), en á því kuldaskeiði náðu margir jöklar mestri útbreiðslu á síðastliðnum 10.000 árum.

Jöklar á Íslandi eins og víðast hvar annars staðar í heiminum hopa hratt og þynnast og afleiðingar loftslagsbreytinga eru mjög sýnilegar. Viðbrögð jökla við breytingum í loftslagi eru mismunandi eftir stærð þeirra og lögun, en flestir jöklar svara innan nokkurra ára með breytingum á stöðu jökulsporðsins. Aukning gróðurhúsalofttegunda sem valda hlýnun andrúmsloftsins er að langmestu leyti af mannavöldum.

Fjallað verður um áhrif jöklabreytinga á nærumhverfið svo sem skriðuföll og myndun jökullóna, breytingar árfarvega, einnig landris, hækkun sjávarborðs, aukna tíðni eldgosa sem og framtíðarhorfur jöklannna. Dæmi verða tekin frá nokkrum jöklum sem liggja í alfaraleið og áhersla lögð á þá jökla sem hafa verið rannsakaðir sérstaklega með tilliti til loftslagsbreytinga.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Breytingar jökla á Íslandi frá lokum 19. aldar til dagsins í dag.
• Hvað það er sem hefur áhrif á framgang og hörfun jöklanna.
• Umhverfisbreytingar í kjölfar jökulhörfunar; landris, hækkun sjávarborðs, myndun lóna o.fl.
• Sérstaklega þá jökla þar sem saga jöklabreytinga hefur verið skoðuð nákvæmlega og jöklalíkön notuð til þess að spá fyrir um framtíð þeirra.

Ávinningur þinn:

• Þátttakendur fá upplýsingar um hversu hratt og mikið jöklarnir hafa hopað og þynnst og sumir hverjir horfið.
• Þátttakendur fá gögn í hendur sem gera þeim kleift að svara aðkallandi spurningum um helstu umhverfisógn samtímans.
• Tekin verða dæmi um jökla sem gjarnan eru heimsóttir og eru vinsælir áningarstaðir, svo sem þeir skriðjöklar sem liggja steinsnar frá þjóðvegi 1.
• Þátttakendur fá yfirsýn yfir algengustu hugtök innan jökla- og loftslagsfræða og hvaða aðferðum er beitt til þess að mæla jöklana.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað öllum sem vilja kynna sér jökla Íslands og þróun þeirra í ljósi umhverfisbreytinga.

Kennsla:

Hrafnhildur Hannesdóttir er með doktorspróf í jarðvísindum frá Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið fjallaði um breytingar á sunnanverðum Vatnajökli í fortíð, nútíð og framtíð. Hún hefur haldið fjölmörg erindi og kynnt niðurstöður verkefnisins á ýmsum vettvangi, ásamt því að vinna að gerð fræðsluefnis um loftslags- og jöklabreytingar.

Aðrar upplýsingar:

Námskeiðið tilheyrir röð sjálfstæðra námskeiða sem fjalla um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra og lausnir sem verða á dagskrá ENDURMENNTUNAR á næstu misserum. Ef öll neðangreind námskeið eru sótt á haustmisseri er veittur 20% afsláttur en hann er reiknaður af verði síðasta námskeiðsins:
Jökla- og loftslagsbreytingar á Íslandi
Loftslagsbreytingar í fortíð og framtíð
Frá loftslagsvísindum til aðgerða - máttur einstaklinganna

Fyrir þátttakendur í fjarfundi:
Vinsamlegast merkið í athugasemdareit við skráningu að óskað er eftir því að sitja námskeiðið í fjarfundi. Námskeiðið fer fram í gegnum fjarfundakerfið ZOOM.
Þátttakendur þurfa að vera með nettengda tölvu, vefmyndavél, hljóðnema og góða ADSL eða ljósnet/leiðara tengingu. Mælt er með að þátttakendur noti Chrome eða Firefox vafra. Slóð námskeiðsins verður sent á það netfang sem þátttakandi hefur gefið upp við skráningu.

Mat þátttakenda

á mælikvarðanum 1 til 5
(4,6)

Umsagnir

Mjög fræðandi.
Greinargóð framsetning og skemmtilega myndrænt.
Hrafnhildur miðlaði mjög vel sinni miklu þekkingu á efninu og gerði það afar áhugavert.
0