Virkustu eldstöðvar Íslands - Katla

Verð 15.300 kr

Virkustu eldstöðvar Íslands - Katla

Verð 15.300 kr
Prenta
Nýtt
Mán. 1. apríl kl. 19:15 - 22:15
Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Námskeiðið tilheyrir röð fimm sjálfstæðra námskeiða sem fjalla um virkni og ástand fimm virkustu eldstöðva Íslands. Eldsumbrot á síðustu áratugum hafa varpað ljósi á eðli kvikuhreyfinga og ferð kviku úr möttli jarðar til yfirborðs. Eldstöðvarnar fimm sýna, um þessar mundir, merki um að þær undirbúi gos á næstu árum eða áratugum. Fjallað verður um mælingar sem gerðar eru til að fylgjast með hegðun þeirra en einnig hvers konar gosum megi búast við í hverri þeirra.

Katla er með hættulegustu eldstöðvum, einkum vegna jökulhlaupanna sem verða jafnan þegar eldgos eiga sér stað undir ísnum innan öskju eldstöðvarinnar. Katla hefur gosið að jafnaði einu sinni til tvisvar á öld á sögulegum tíma og jafnvel oftar á forsögulegum tíma. Gos í Kötlu geta verið með ýmsu móti, allt frá risastórum hraungosum eins og Eldgjárgosinu mikla árið 934, súrum sprengigosum, basalt-sprengigosum innan öskjunnar og niður í gos sem eru svo lítil að þau ná ekki upp í gegnum ísinn. Hugsanlega hafa orðið slík smágos 1955, 1999 og 2011.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Mismunandi tegundir gosa í Kötlu.
• Hættur vegna jökulhlaupa úr Kötlu.
• Mælingar og núverandi ástand Kötlu.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað áhugasömum almenningi. Það getur nýst kennurum og leiðsögumönnum í starfi sínu sem og fólki sem tengist almannavörnum eða hjálparsveitum.

Kennsla:

Páll Einarsson stundaði nám í eðlisfræði og jarðeðlisfræði í Þýskalandi og Bandaríkjunum og tók doktorspróf frá Columbia University í New York árið 1975. Í starfi sínu sem sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans og prófessor við Háskóla Íslands hefur hann unnið við rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum, jarðskjálftum og eldvirkni í meira en fjóra áratugi.

Aðrar upplýsingar:

Ef öll þrjú námskeiðin eru sótt á misserinu er veittur 20% afsláttur en hann er reiknaður af verði síðasta námskeiðsins.
Virkustu eldstöðvar Íslands – Katla
Virkustu eldstöðvar Íslands – Hekla
Virkustu eldstöðvar Íslands – Öræfajökull
Vinsamlega takið fram í athugasemdum við skráningu á síðasta námskeiðið (Öræfajökull) ef þú sóttir námskeiðin um Kötlu og Heklu.

Athugið að tvö síðustu námskeiðin í þessari röð verða á haustmisseri.
Virkustu eldstöðvar Íslands -Bárðarbunga
Virkustu eldstöðvar Íslands – Grímsvötn

0