Hvalir í náttúru Íslands - STAÐ- OG FJARNÁMSKEIÐ
Hvalir í náttúru Íslands - STAÐ- OG FJARNÁMSKEIÐ
)
Upplýsingar um þátttöku í ZOOM.
UPPLÝSINGAR UM ÁHRIF COVID-19 Á STARFSEMI EHÍ
Hvalir eru gífurlega mikilvægur og stór þáttur í vistkerfum hafsins á norðurslóðum, sér í lagi við stendur Íslands. Fjallað verður um tegundafjölbreytileika hvala á heimsvísu og umhverfis Ísland, aðlögun þessa fjölbreytta hóps að lífinu í hafinu og hlutverk þeirra í vistkerfi sjávar.
Fjallað verður um uppruna hvala (Cetacea); allt frá tímum forfeðra þeirra sem gengu á fjórum fótum á landi og aðlöguðust smátt og smátt hinum gjöfulu sjávarbúsvæðum til þeirra hvala sem synda um heimsins höf í dag. Sérstaklega verður fjallað um hljóðsamskipti hvala sem er ein af lykilhæfni hvala til að lifa af í undirdjúpunum.
Einnig verður rætt um samband manns og hvala, þau áhrif sem hvalveiðar höfðu á samfélag manna en jafnframt á hvalastofna á heimsvísu. Í framhaldinu munum við ræða um stöðu hvala í dag, hvernig ólíkum fjölskyldum hvala vegnar í dag og þær helstu ógnir sem að þeim steðja. Sagðar verða sögur af hvölum úr sínu náttúrulega umhverfi sem rannsóknir hafa eða eru að leiða í ljós.
Hlýnun sjávar hefur nú þegar haft áhrif á útbreiðslu hvala og viðveru þeirra á búsvæðum sínum. Breytingar á farhegðun ýmissa hvalategunda gefa okkur mikilvægar vísbendingar um þær breytingar sem eiga sér nú stað í hafinu, s.s. hvað varðar hitastig sjávar og útbreiðslu fæðutegunda. Við munum ræða um þessar yfirstandandi breytingar og hvaða áhrif við getum búist við að þær hafi á ýmsar hvalategundir í nánustu framtíð.
Á námskeiðinu er fjallað um:
• Uppruna og aðlögun hvala að sjávarbúsvæðum.
• Hlutverk hvala í vistkerfi sjávar.
• Hvalveiðar.
• Nýjustu rannsóknir á hvölum við Ísland.
• Áhrif hlýnunar sjávar á hvali á norðurslóðum.
Ávinningur þinn:
• Aukinn skilningur á aðlögun og náttúrulegu vali sem leiðir til sérhæfðra tegunda
• Góð þekking á einstakri aðlögun landspendýrs að sjávarbúsvæðum og hvernig aðlögun að sjónum hefur leitt af sér merkilega methafa í dýraríkinu.
• Þekking á hlutverki hvala í vistkerfi sjávar og hvernig það skiptir okkur Íslendinga máli að hvalir séu hluti af vistkerfi hafsins umhverfis landið.
• Skilningur á því út á hvað hvalarannsóknir ganga og hvaða leiðir er hægt að fara til að rannsaka og auka þekkingu okkar á þessum merkilegu sjávarspendýrum.
• Innsýn inn í áhrif loftslagshlýnunar á lífríki hafsins.
Fyrir hverja:
Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á dýrum, náttúrufræði og náttúruvernd. Einnig ljósmyndurum sem ferðast sérstaklega til að nálgast villt dýr. Jafnframt er námskeiðið tilvalið fyrir kennara og nemendur í náttúrufræðum, leikna og lærða.
Kennsla:
Edda Elísabet Magnúsdóttir er sjávar- og atferlisvistfræðingur að mennt með sérhæfingu (PhD) í atferli og vistfræði hvala. Edda stundar nú rannsóknir sem nýdoktor við HÍ á hnúfubökum við Ísland með það fyrir sjónum að efla þekkingu okkar á breyttri farhegðun þeirra hvala og möguleg viðbrögð þeirra við hlýnun sjávar. Edda hefur starfað sem aðjúnkt við Háskóla Íslands (2017-2019) og kennt fjölmörg fög við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ sem og líffræðigreinar við Faggreinadeild Menntavísindasviðs HÍ. Edda hefur starfað lengi við vísindamiðlun til barna og fullorðinna, bæði í gegnum Endurmenntun HÍ sem og í Háskóla Unga fólksins og Háskólalestinni. Edda hefur starfað sem náttúrufræðikennari í framhaldsskólum. Að loknu BSc prófi, 2005 - 2007 starfaði Edda sem leiðsögumaður í hvalaskoðun sem leiddi hana inn í heim hvalanna.
Aðrar upplýsingar:
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.
Mat þátttakenda
Umsagnir
Efnið og glærur mjög vel fram sett. Edda er skemmtilegur fyrirlesari sem vekur áhuga á námsefninu og heldur manni alveg allan tímann.
Edda er sérlega lifandi og skemmtilegur kennari. Hún er auðvitað sérfræðingur í efninu en ástríða hennar fyrir viðfangsefninu, hvölum, skein stöðugt í gegn. Hreint út sagt framúrskarandi.
Frábært að geta fylgst með heima úr stofu þar sem ég átti ekki kost á því að fara suður.
Lifandi kennsla, hóflega mikið á hverri glæru, fyrirlesari brann fyrir efninu og það skilaði sér.
Mjög góð og fræðandi yfirferð um viðfangsefnið. Áhugaverð nálgun.