Hversdagsleikinn í nýju ljósi - lifandi námskeið um hvernig ellin virkjar lífskraftinn
Hversdagsleikinn í nýju ljósi - lifandi námskeið um hvernig ellin virkjar lífskraftinn
)
UPPLÝSINGAR UM ÁHRIF COVID-19 Á STARFSEMI EHÍ
Námskeiðið er hugsað til að vekja upp og þjálfa lífs- og sköpunarkraftinn og kynnast nýjum leiðum til að finna bæði það sem býr innra með okkur og finna fyrir þeim áhrifum sem hið hversdagslega nærumhverfi hefur á okkur. Á námskeiðinu kynnist þú einnig aðferðum til að takast á við streitu í hversdeginum. Ellin er skoðuð í skoplegu ljósi en á sama tíma er námskeiðið lofsöngur til ellinnar og gamla fólksins í samfélaginu.
Námskeiðið er rannsókn á því hvernig við skynjum og nýtum tíma til sköpunar. Hvernig hægt er að hægja á tímanum, kafa ofan í smáatriði hversdagslegra gjörða og nýta þannig jafnvel hin tilgangsminnstu atvik til sköpunar og innblásturs.
Notast verður við persónuna „Gamli” sem kennararnir Hrefna og Ragnar hafa skapað. Þar er á ferðinni gamall maður, leikinn af Ragnari, sem gerir hlutina afskaplega hægt og þess vegna er gott að nota aðferðir hans til að teygja á hversdeginum. Einnig verða á námskeiðinu leiddar inn hugleiðslu- og líkamsæfingar til að þjálfa þátttakendur í því að gera hlutina hægt. Ekki verður einungis leitað leiða til að hugsa um hvernig gamla fólkið í kringum okkur eyðir hversdeginum, heldur einnig við sjálf þegar við eldumst.
Námskeiðið er í fyrirlestrarformi en er þrátt fyrir það mjög lifandi.
Á námskeiðinu er fjallað um:
• Hvernig hægt er að dvelja í sjálfum sér.
• Að dýpka skynjun á sköpunarflæðinu sem býr í hversdeginum.
• Hvernig líkami og hugur vinna saman.
• Hvernig allt í kringum okkur getur verið skapandi og innihaldsríkt ef við bara leyfum okkur að staldra við og skoða það örlítið öðruvísi en við erum vön.
• Kosti þess að eldast og skoplegar hliðar þess.
Ávinningur þinn:
• Þú lærir aðferðir við að draga úr streitu með því að tileinka þér æfingar sem kenna þér að hægja á hversdagslegum athöfnum þínum.
• Þú kynnist því að vera með sjálfum/sjálfri þér og skynja umhverfið á nýstárlegan hátt.
• Þú kynnist leiðum við að takast á við óþolinmæði og eirðarleysi.
• Þú kynnist kostum þess að gera minna og upplifa meira.
• Þú öðlast innsýn í hvernig má virkja sköpunarkraftinn, þróa hugmyndir og miðla þeim á listrænan hátt.
Fyrir hverja:
Námskeiðið er fyrir alla sem vilja öðlast nýtt sjónarhorn á hversdaginn til sköpunar og tileinka sér aðferðir til að staldra við.
Kennsla:
Sviðslistakonan Hrefna Lind Lárusdóttir hefur starfað með listahópum á borð við The Post Performance Blues Band á Íslandi og Macao listahópnum á Ítalíu. Hún er einnig listrænn stjórnandi Saga residency á Eyrarbakka. Hrefna er menntuð jógakennari og er stundakennari við Listaháskóla Íslands og Ritlistardeild Háskóla Íslands. Hrefna útskrifaðist með meistaragráðu frá Listaháskóla Íslands í samtímasviðslistum. Einnig lauk hún meistaragráðu frá Naropa University í Theater Comtemporary Performance.
Sviðslistamaðurinn Ragnar Ísleifur Bragason hefur undanfarin ár tekið þátt í bæði dans- og leiksýningum með leikhópunum 16 elskendur og Kriðpleir. Ragnar hefur kennt við Listaháskóla Íslands og LungAskólann á Seyðisfirði. Hann útskrifaðist frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands.
Saman gerðu Hrefna og Ragnar sýninguna „Gamall“, þar sem Ragnar bregður sér í hlutverk gamals manns.
Aðrar upplýsingar:
Fyrirvari
Ef óviðráðanlegar aðstæður, s.s. sóttvarnarreglur, koma í veg fyrir að hefðbundin kennsla geti farið fram í húsnæði Endurmenntunar á auglýstum námskeiðstíma verður brugðist við með því að:
A – færa námskeiðið og kynna skráðum þátttakendum nýjar dagsetningar með eins góðum fyrirvara og unnt er,
eða
B – kenna námskeiðið sem fjarnámskeið í gegnum ZOOM á áður auglýstum tíma.
Komi til ofangreindra breytinga fá skráðir þátttakendur allar nauðsynlegar upplýsingar sendar í tölvupósti og geta þeir þá tekið ákvörðun um skráningu sína í ljósi breyttra forsenda.
Styrkur
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.