Dulmögnuð bókmenntasaga Vestur-Íslendinga

Verð snemmskráning 24.800 kr Almennt verð 27.300 kr

Dulmögnuð bókmenntasaga Vestur-Íslendinga

Verð snemmskráning 24.800 kr Almennt verð 27.300 kr
Prenta
Nýtt
Snemmskráning til og með 9. apríl
Mán. 19., 26. apríl - 3. maí kl. 19:30 - 21:30 (3x)
Birna Bjarnadóttir bókmenntafræðingur
Endurmenntun, Dunhaga 7.

UPPLÝSINGAR UM ÁHRIF COVID-19 Á STARFSEMI EHÍ

Spáð verður í líf og verk skálda og rithöfunda sem skrifuðu á íslensku í Vesturheimi um og eftir aldamótin nítjánhundruð. Markmiðið er að nálgast brot úr þessari bókmenntasögu og reyna jafnframt að skilja hvers vegna tvær kynslóðir skálda og rithöfunda treystu íslenskunni betur en ríkjandi tungumáli fyrir sköpun sinni og lífsreynslu.

Í tilraun um dulmagnaða bókmenntasögu í víðernum Norður-Ameríku um og eftir aldamótin nítjánhundruð verður stefnan tekin á líf og verk þriggja skálda og rithöfunda. Þetta eru þau Helga Steinvör Baldvinsdóttir (1858–1941) sem tók sér skáldanafnið Undína, Stephan G. Stephansson (1853–1927) og Guttormur J. Guttormsson (1878–1966).

„Við erum hjer, en hugurinn er heima;/því hverjum lærist fyrstu ást að gleyma?“, orti Undína í Vesturheimi. Hún var í hópi þeirra fyrstu sem sigldu vestur um haf á síðari hluta nítjándu aldar. Kvæðið sem geymir þessar ljóðlínur flutti hún árið 1937 á þjóðhátíð Íslendinga í Blaine og var þá búin að dvelja í meira en hálfa öld í Norður-Ameríku. Líkt og Stephan G. tilheyrði Undína landnemunum í nútímabókmenntum á íslensku vestan hafs.
Í samanburði við aðra nútímahöfunda í Vesturheimi sem skrifuðu á íslensku má stundum þekkja verk landnemanna á þeirri útlegðarpóesíu sem ógleymanleg „fyrsta ástin“ fæðir af sér. Fátt er þó klippt og skorið í þessu ríkulega efni. Viss útlegðarkennd segir einnig til sín í verkum höfunda á borð við Guttorm J. Guttormsson sem var fæddur vestan hafs.

Fjallað verður um nokkra þræði í lífi og verkum þessarar skálda og rithöfunda, meðal annars ríkidæmi útlegðarpóesíunnar og mögulegar ástæður þess að hún hreiðraði um sig í íslenskunni, þvert á ríkjandi tungumál í landinu sem fóstraði þau. Einnig verður fjallað um sögufræg viðbrögð við dulmagni þessarar bókmenntasögu sem og splunkunýjar hugmyndir um efnið.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Brot úr menningar- og bókmenntasögu íslenskra innflytjenda í Vesturheimi.
• Landnema í nútímabókmenntum vestan hafs.
• Útlegðarpóesíu í bókmenntum.
• Nýjar útgáfur á verkum skálda og rithöfunda sem skrifuðu á íslensku um og eftir aldamótin nítjánhundruð í Vesturheimi.
• Ný skrif um bókmenntir á íslensku í víðernum Norður-Ameríku.

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á lífi og verkum skálda og rithöfunda sem skrifuðu á íslensku í Vesturheimi um og eftir aldamótin nítjánhundruð.
• Innsýn í útlegðarpóesíu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra.
• Innsýn í dulmagnaða bókmenntasögu í Vesturheimi.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er opið öllu áhugafólki um menningu og bókmenntir íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi um og eftir aldamótin nítjánhundruð. Námskeiðið er tilvalið fyrir kennara á efri stigum grunnskóla og í framhaldsskólum. Námskeiðið er sömuleiðis tilvalið fyrir fólk hvort heldur í menntakerfinu eða stjórnsýslu sem hefur umsjón með vegferð innflytjenda á Íslandi.

Kennsla:

Dr. Birna Bjarnadóttir veitti íslenskudeild Manitóbaháskóla í Winnipeg forstöðu 2003‒2015 og hefur birt fræðirit, skáldskap og greinar beggja vegna hafs. Um þessar mundir starfar hún sem verkefnisstjóri á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands. Hún stýrir einnig "Leiðangrinum á Töfrafjallið" (2013‒2020), samstarfsverkefni lista- og fræðimanna og menningar- og bókaútgáfufélaginu Hin kindin.

Aðrar upplýsingar:

Kennari mælir með lesefni í upphafi námskeiðs.

Fyrirvari
Ef óviðráðanlegar aðstæður, s.s. sóttvarnarreglur, koma í veg fyrir að hefðbundin kennsla geti farið fram í húsnæði Endurmenntunar á auglýstum námskeiðstíma verður brugðist við með því að:
A – færa námskeiðið og kynna skráðum þátttakendum nýjar dagsetningar með eins góðum fyrirvara og unnt er,
eða
B kenna námskeiðið sem fjarnámskeið í gegnum ZOOM á áður auglýstum tíma.

Komi til ofangreindra breytinga fá skráðir þátttakendur allar nauðsynlegar upplýsingar sendar í tölvupósti og geta þeir þá tekið ákvörðun um skráningu sína í ljósi breyttra forsenda.

Styrkur
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

0