Saga, umhverfi og framtíð Nílar

Verð 32.800 kr

Saga, umhverfi og framtíð Nílar

Verð 32.800 kr
Prenta
Nýtt
Mið. 15. og fim. 16. jan. og mán. 20. og mið. 22. jan. kl. 19:30 – 21:30 (4x)
Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Níl er talið lengsta fljót veraldar. Á bökkum Nílar eru að finna stórkostlegar sögulegar minjar svo sem píramídana í Giza og hofin í Luxor og Abu Simbel. Elstu sögur Biblíunnar gerast við Níl og í mörgum trúarbrögðum er fljótið tákn upphafs, eilífðar og dauða. Á þessu námskeiði verður fjallað um sögu, umhverfi og framtíð Nílar.

Rætur Nílar liggja í Mið- og Austur-Afríku, Hvíta Níl á upptök í Viktoríuvatni í Úganda og Bláa Níl í Tanavatni í Eþíópíu og koma þær saman í Súdan. Áin teygir anga sína til ellefu ríkja áður en hún skilar sér í Miðjarðarhafið. Níl er bókstaflega lífæð Egyptalands og án hennar væri ekki hægt að búa í þessu eyðimerkurríki. Langflestir íbúar Egyptalands búa við óshólma Nílar en við þá standa tvær stærstu borgir Egyptalands, Kaíró og Alexandría. En nú er hún Snorrabúð stekkur - vegna hlýnunar jarðar, vaxandi fólksfjölda, stífluframkvæmda og þurrka í Norður- og Austur-Afríku hefur vatnsmagn Nílar minnkað og gæði vatnsins eru ekki þau sömu og áður. Mun Níl, tákn eilífðarinnar, áfram verða lífæð Egyptalands um ókomna framtíð?

Í þessu þverfaglega, fjögurra kvölda námskeiði, beitum við ímyndunaraflinu og „siglum“ niður Níl í tíma og ótíma! Rétt eins og við værum ferðamenn á eiginlegri siglingu, skoðum við sögu og umhverfi þeirra samfélaga sem við hana búa og pólítískar og menningarlegar aðstæður þeirra.
 
Við hefjum „siglinguna“ í Eþíopíu, eða við upphaf Bláu Nílar, þaðan sem 85% af vatnsmagni Nílar kemur. Fyrsta kvöldið munum við skoða sögu Eþíópíu og Súdan og bera saman reynslu þessara þjóða sem er harla ólík en þessi lönd hafa nú nýjar metnaðarfullar áætlanir um að nýta betur vatnið úr Níl sem mun hafa umtalsverð áhrif á Egyptaland.
 
Við stöldrum við í Aswan og Lúxor í Egyptalandi annað kvöldið. Þar verður fjallað um áhrif ferðaþjónustunnar á þessa vinsælu ferðamannastaði, hvernig forn Egyptaland birtist í samtímanum og tilraunir egypsku stjórnarinnar til að stjórna Níl með byggingu stíflna við Aswan. Stíflugerðin hefur haft umtalsverð umhverfisáhrif og leitt til brottflutnings Núbía fólksins sem hafði búið á þessu svæði um þúsaldir. Hvað afleiðingu hefur þessi stórfellda virkjun haft á lífið í suðurhluta Egyptalands?
 
Þriðja kvöldið skoðum við hina mögnuðu stórborg Kaíró og hlutverk Nílar í þéttbýlinu. Hvað er að gerast í Kaíró í allri þessari umferð, mannhafi, og mengun? Hvaða hugmyndir hafa stjórnvöld um að bæta lífið í Kaíró? Hvaða áhrif hefur vöxtur Kaíró á fornminjar eins og píramídana?
 
Að lokum fjöllum við um svæðið í kringum Alexandríu þar sem Níl rennur út í Miðjarðarhafið. Við endalok Nílar skoðum við mögulega framtíðarsýn og hvernig eigi að meta nútímann út frá reynslu sögunnar. Níl er stöðugt að breytast og þau samfélög sem að henni liggja eru sífellt að laga sig að breyttum aðstæðum. Staðan er tvísýn, flókin og háalvarleg. Spennan magnast þar sem löndin eru að berjast um hver eigi Níl og hvernig er hægt að nýta hana og skipta henni á milli sín á sanngjarnan hátt. Er líklegt að stríð muni brjótast út vegna vatnsskortsins og hlýnunar jarðar í Mið-Austurlöndum?
 
Er Níl að deyja eða er hún eilíf?

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á sögu landanna sem liggja að Níl og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á framburði Nílar.

Mat þátttakenda

á mælikvarðanum 1 til 5
(4,97)

Umsagnir


Umsagnir ánægðra þátttakenda á fyrri námskeiðum Magnúsar Þorkels:
Mjög gott námskeið. Frábær kennari með yfirburða þekkingu og kemur námsefni vel til skila.
Vel skipulagt og ótrúlega mikil fræðsla á stuttum tíma. Kennarinn þekkir sögu og staðreyndir/atburði vel og gerir efnið ótrúlega lifandi og spennandi.
Stórkostlegt námskeið í alla staði og lærdómsríkt.
Einn besti og áhugasamasti kennari sem ég hef hlýtt á!
0