Enska landsbyggðin - falinn fjársjóður

Verð snemmskráning 17.500 kr Almennt verð 19.300 kr
Prenta
Nýtt
Snemmskráning til og með 5. febrúar
Fim., 15. þri. 20., og fim. 22. fim. feb. kl. 19:30 - 21:30 (3x)
Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, blaðakona
Endurmenntun, Dunhaga 7.

England er svo miklu meira en London. Þorpin sem við þekkjum úr breskum sjónvarpsþáttum, grænu grundirnar sem sögupersónur Jane Austen arka um og merkilegar sögu- og menningarminjar bíða þeirra sem skipuleggja sína eigin ferð út á ensku landsbyggðina.

Á námskeiðinu verður England kynnt fyrir þeim sem hafa áhuga á að ferðast út fyrir helstu borgir Bretlands. Umhverfi sjónvarpsþátta á borð við Poldark, Vera, Downtown Abbey og Broadchurch ætti að vera sumum kunnuglegt en einnig verður bent á áhugaverðar göngu- og hjólaleiðir, sögulega staði og náttúruundur. Farið verður skipulega yfir hvert landsvæði og hvað er í boði þar, hvaða samgöngur séu bestar til að komast þangað frá London og að hverju þurfi að gæta. Þátttakendur fá hagnýtar upplýsingar um hvernig þeir geta skipulagt sitt eigið ferðalag um enskar grundir og hvar sé hægt að leita frekari upplýsinga.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Elstu þjóðleið Bretlands, The Ridgeway, 140 km langan hrygg sem liggur um Suður-England og hefur verið gönguleið í um 5000 ár.
• Júraströndina við Ermasundið þar sem hvítir klettarnir geyma steingervinga sem gestir geta auðveldlega séð.
• Gufulestaferðir sem standa til boða víða um landið.
• Gistimöguleika í þorpum og sveitum, almannarétt til göngu- og hjólaferða um enskar sveitir og umgengnisreglur því tengt.
• Siglingar um skipaskurði, hvar og hvernig er hægt að leigja báta og hvað ber að hafa í huga.
• Sögusvið þekktra bókmenntaverka, heimahaga frægustu rithöfunda og skálda Englands og hvernig best sé að komast þangað.
• Helstu staði þar sem þekktir, breskir sjónvarpsþættir eru kvikmyndaðir, hvað sé áhugavert að skoða þar og hvernig best sé að komast þangað.
• Hagnýtar upplýsingar um almenningssamgöngur utan London, ráðleggingar varðandi miðakaup og almennt um skipulagningu eigin ferðar.

Ávinningur þinn:

• Þú kynnist annarri hlið á nágrannalandinu Englandi sem býr yfir gríðarlegri náttúrufegurð um leið og stórborgunum sleppir.
• Nýir ferðamöguleikar opnast og áhugafólk um göngur, fjallgöngur og hjólreiðar uppgötvar nýjar áskoranir.
• Þú lærir hvar best er að byrja og að hverju þarf að hyggja þegar þú skipuleggur þitt eigið ferðalag um England og kemst yfir byrjunarhjallana.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er fyrir alla þá sem hafa áhuga á enskri menningu og langar að skoða England betur upp á eigin spýtur. Áfangastaðir flugfélaganna verða oft eina upplifun ferðalanga af þessu stórbrotna landi en með dálitlum undirbúningi er hægt að fara í sannkallaða ævintýraferð og njóta náttúrufegurðar og kyrrðar ensku landsbyggðarinnar.

Kennsla:

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, blaðakona, er með meistaragráðu í ensku og enskum bókmenntum og hefur búið í Bretlandi seinustu ár. Þaðan hefur hún m.a. skrifað ýmsar ferðagreinar um Bretland til að hvetja samlanda sína til að gægjast út fyrir stórborgirnar og njóta landsbyggðarinnar og þess sem hún hefur upp á að bjóða.

Aðrar upplýsingar:

Ingibjörg heldur úti Facebook síðunni Bretarós og þar má finna upplýsingar tengda námskeiðinu o.fl.

0