Undraveröld gimsteina

Verð 21.900 kr

Undraveröld gimsteina

Verð 21.900 kr
Prenta
Nýtt
Mið. 14. og 21. nóv. kl. 19:30 - 22:00
Óskar Haraldsson, AG dipl. frá Asian Institute of Gemological Sciences í Bangkok
Endurmenntun, Dunhaga 7.

Gimsteinar hafa heillað mannkynið frá örófi alda. Heimur gimsteinanna er spennandi, sveipaður dulúð og ævintýraljóma. Á þessu námskeiði munum við skyggnast inn í þennan heim. Við kynnumst demöntum, rúbínum, safír, emeröldum og fleiri tegundum gimsteina. Farið verður yfir öll mikilvægustu atriðin í viðskiptum með gimsteina, sem og uppruna þeirra.

Fyrr á öldum var verðmæti gimsteina lengst af metið á annan hátt en nú er. Þeir tengdust töfrum eða höfðu lækningamátt og þeim fylgdi gæfa - eða ógæfa.
Í nútímaviðskiptum með gimsteina byggir verðmætamatið á tegund, lit, fegurð, meðhöndlun og uppruna steinsins. Af um 3000 steindum sem til eru á jörðinni teljast aðeins um 50 - 130 þeirra vera gimsteinar, eftir mismunandi skilgreiningum.
Á námskeiðinu fylgjum við gimsteinunum frá námunni inn í skartgripaverslunina, kynnumst hvar og hvernig þeir verða til, fáum innsýn í framandi námusvæði, hvernig gimsteinn er gerður að söluvöru og hverjir höndla með hann. Er það góð fjárfesting að kaupa gimstein og er óhætt að kaupa hann hvar sem er? Afhverju eru viðskipti með demanta háð öðrum lögmálum en viðskipti með aðra gimsteina? Eru gimsteinar á Íslandi? Þessu og fjölmörgu öðru verður svarað.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Allar helstu tegundir gimsteina. Mismun milli tegunda og hvernig greint er á milli þeirra.
• Mikilvægi gimsteina í fornum menningarsamfélögum og sögu viðskipta með þá.
• Jarðfræði gimsteina, hvernig þeir myndast og hvar þeir finnast. Einnig er fjallað um gimsteina og Ísland.
• Vinnslu gimsteina, hitun, skurð og slípun. Aðrar aðferðir til að bæta útlit steinsins og hvaða áhrif það hefur á verð.
• Gervisteina og blekkingar á markaði. Hvernig hægt er að forðast slíkt.
• Markaði og verð. Mismun milli tegunda. Hvaða atriði stjórna verðinu. Hvar er hagstæðast að kaupa gimsteina. Hvernig þróast verðið frá námunni inn í skartgripaverslunina. Er óhætt að kaupa gimsteina á netinu?
• Við hvað gimsteinafræðingar starfa.
• Hvar hægt er að læra gimsteinafræði og hvað það kostar.

Ávinningur þinn:

• Grunnþekking á helstu tegundum gimsteina.
• Innsýn inn í ævafornan, spennandi og framandi atvinnuveg.
• Fræðast um feril gimsteina frá námunni, í skartgripina og til kaupandans.
• Fræðast um mikilvæg atriði við gimsteinakaup.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er fyrir skartgripahönnuði, gullsmiði og aðra sem vinna með gimsteina. Það hentar einnig öllum þeim sem hafa áhuga á að kynnast undraveröld gimsteinanna.

Kennsla:

Óskar Haraldsson lauk B.S. prófi í rekstrarfræði frá Bifröst árið 1998. Hann hefur einnig lokið Accreditet Gemologist Diploma (AG) frá Asian Institute of Gemological Sciences í Bangkok 2017. Óskar hefur starfað við verkefnastjórnun við Fjármálasvið Landspítala og gagnavinnslu í Pacific Stock Exchange í San Francisco. Einnig hefur hann verið með eigin rekstur í vefsíðugerð og ferðaþjónustufyrirtæki í Chiang Mai í Tælandi.

0