Brautskráning Endurmenntunar Háskóla Íslands fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíó síðastliðinn föstudag, 15. júní. 114 kandídatar brautskráðust af fjórum námsbrautum, Jákvæðri sálfræði – diplómanámi á meistarastigi, Leiðsögunámi á háskólastigi, Fjölskyldumeðferð – diplómanámi á meistarastigi og námi til löggildingar fasteigna- og skipasala.
Nýsköpun og kjarkur
Kristín Jónsdóttir Njarðvík, endurmenntunarstjóri, flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og þakkaði samleiðina með útskriftarnemum. Námsbrautum Endurmenntunar hefur fjölgað á síðustu árum og aðsókn aukist til muna, enda metnaður lagður í nýsköpun og að námsframboð endurspegli þarfir samfélagsins á hverjum tíma.
Hátíðarræðu flutti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Í máli hans kom meðal annars fram að Endurmenntun Háskóla Íslands er í forystu nýsköpunar menntunar og fræðslu fyrir fullorðna, en tæpur fjórðungur fullorðinna landsmanna stundar símenntun af einhverju tagi og eflir þannig möguleika sína í starfi og einkalífi.
Sigríður Lára Haraldsdóttir, kandídat úr Fjölskyldumeðferð – diplómanámi á meistarastigi, flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að njóta lífsins – vera kjarkmikil, fylgja draumum sínum og láta hjartað ráða för.
Þakkir
Við óskum útskriftarnemendum okkar innilega til hamingju með áfangann og þökkum fyrir samleiðina undanfarin misseri.
Á Facebook síðunni okkar má sjá fjölda skemmtilegra mynda frá brautskráningunni