Fréttir

Aldrei fleiri fasteignasalar útskrifast

Aldrei fleiri fasteignasalar útskrifast

Það var hátíðardagur hjá okkur í Endurmenntun föstudaginn 9. júní síðastliðinn þegar 138 kandídatar úr fjórum námsbrautum voru brautskráðir við hátíðlega athöfn í Háskólabíó.

Þetta voru námsbrautirnar Jákvæð sálfræði, Nám til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala, Sérfræðinám í hugrænni atferlismeðferð og Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun.

Fjölmennasti hópurinn voru kandídatar sem luku námi til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, 57 talsins, en aldrei hafa fleiri útskrifast af þessari námsbraut á sama tíma. Mikil aðsókn hefur verið í það nám undanfarin misseri og eigum við von á mun stærri útskriftarhóp á næsta ári.

Gullmoli í íslensku menntasamfélagi

Við upphaf athafnarinnar ávarpaði Kristín Jónsdóttir Njarðvík, endurmenntunarstjóri nemendur og gesti og þakkaði m.a. samstarfsaðilum Endurmenntunar sem koma að þróun og utanumhaldi námsbrauta fyrir afar ánægjulegt og mikilvægt samstarf.  

Hátíðarræðumaður dagsins Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sagði að sí- og endurmenntun spili æ stærra hlutverk í nútímasamfélagi og að Endurmenntun Háskóla Íslands sé forystuafl í nýsköpun.

Elín Elísabet Jóhannsdóttir, kandídat úr Jákvæðri sálfræði hélt ávarp fyrir hönd nemenda. Hún sagði að endurmenntun spyrji ekki um aldur, heldur sé hún hvati fyrir fólk til að eflast, þroskast og dafna, eins lengi og því endist aldur og heilsa til. Að mati Elínar er Endurmenntun Háskóla Íslands því gullmoli í íslensku menntasamfélagi.

Þakkir fyrir samveruna

Við óskum öllum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og þökkum þeim fyrir samveruna undanfarin misseri.

Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun

Sérfræðinám í hugrænni atferlismeðferð

Nám til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Jákvæð sálfræði

Enn fleiri myndir frá útskriftardeginum

0