Fréttir

Alnafnarnir Kristján Sturlusynir

Alnafnarnir Kristján Sturlusynir

Á Íslandi heita aðeins tveir menn Kristján Sturluson og svo skemmtilega vill til að þeir voru báðir í námi hjá okkur í Endurmenntun nú í vetur. Kristján Sturluson eldri er í leiðsögunámi en sá yngri í jákvæðri sálfræði.

Alnafnarnir hafa vitað hvor af öðrum í nokkuð mörg ár en til dæmis eru bræður þeirra kunningjar. Í vetur hittust þeir þó í fyrsta sinn, alveg óvænt, á ganginum hér á Dunhaganum.

Boðskort á Bessastaði

Kristján eldri var áður framkvæmdastjóri Rauða krossins og nú Krabbameinsfélags Íslands og í tengslum við starf hans hafa fjölmiðlar oft leitast við að heyra í honum. Þessi símtöl hafa hins vegar nokkrum sinnum í gegnum árin ratað til Kristjáns yngri og eitt sinn fékk hann sent til sín boðskort á Bessastaði. Hann segir að það hafi nú flogið í gegnum höfuð hans að mæta bara á Bessastaði en ákvað þó að hafa samband við nafna sinn og segja honum frá boðskortinu. Kristján eldri segir að hann hafi stundum haft áhyggjur af því að hafa valdið nafna sínum óþægindum en svo var alls ekki, hann hafði nú oftast bara gaman af þessum ruglingi.

Stefnumót við alnafnana

Okkur hér á Dunhaganum þótti þetta allt saman stórmerkilegt og settum upp stefnumót með þeim alnöfnum sem eiga ekki bara nafnið og það að vera í námi í Endurmenntun sameiginlegt heldur lærðu þeir báðir sálfræði.  Við smelltum af þeim nokkrum myndum og þeir tóku líka báðir „sjálfu“ og gerðust vinir á Facebook.

0