Fréttir

Aukin þekking á náttúrunni færir okkur ánægju

Aukin þekking á náttúrunni færir okkur ánægju

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur, er einn fjölmargra fræðimanna sem kennir hjá ENDURMENNTUN. Síðustu árin hefur hann kennt námskeið á sviði jarðfræði, aðallega tengd Íslandi og reynt að draga fram ýmiss konar sjónarhorn á jarðfræði landsins. „Í haust verð ég með einnar kvöldstundar námskeið um myndun og jarðsögu Íslands þar sem farið verður í stórum dráttum yfir uppruna og tilvist landsins, og hvernig þróun þess hefur verið frá „fæðingu“. Áður hef ég verið með námskeið tengd ákveðnum landshlutum, nokkurs konar „ferðajarðfræði“ og ég stefni á að bjóða áfram upp á þau á næstu árum auk annarra námskeiða tengdum jarðfræði,“ segir Snæbjörn.

Ný náttúrufræðinámskeið

Umræða um náttúruna, náttúruvernd, loftslagsmál og önnur tengd málefni hefur aukist mikið undanfarin ár og ber dagskrá ENDURMENNTUNAR nokkurn keim af því en Snæbjörn hefur verið starfsfólki innan handar við þróun nokkurra nýrra námskeiða á þessu sviði. „Á þessum námskeiðum um náttúrufræði sem við erum að þróa og koma á koppinn verður lögð áhersla á mörg námskeið sem hvert tekur bara eina kvöldstund, svo úrvalið verði fjölbreytt og námskeiðin snörp og áhugaverð.“

Snæbjörn segir námskeiðin vera fyrir alla með áhuga á náttúrunni, hvort sem viðkomandi hafi sérfræðiþekkingu á sviði náttúrufræði eða aðeins einskæran áhuga. „Jafnvel þótt ég kenni sjálfur námskeið á mínu sviði sé ég fyrir mér að vilja mæta á námskeið hjá öðrum kennurum enda ávallt mikið einvala lið sem sér um námskeiðin hjá ENDURMENNTUN.“

Íslendingar tengdir náttúrunni

Að mati Snæbjörns eru Íslendingar að átta sig betur á því hve mikil gæði eru fólgin í náttúrunni og aðgengi að henni en líka hve nærri henni við höfum gengið, sem sjáist á þverrandi auðlindum og loftslagsbreytingum. „Íslendingar hafa alltaf verið nátengdir náttúrunni í gegnum landið, sem er strjálbýlt og hrjóstrugt en fjölbreytt og gætt mikilli náttúrufegurð. Aukin þekking á náttúrunni færir okkur ekki aðeins ánægju af því að ferðast og umgangast náttúruna en ekki síður tól til að takast á við yfirstandandi breytingar og draga úr hinum miklu áhrifum okkar á náttúruna. Náttúrufræðimenntun verður sífellt mikilvægari og það skilar sér í auknum áhuga almennings á að nálgast hana og auka þekkingu,“ segir Snæbjörn og bætir við að náttúrufræðimenntun líði þó svolítið fyrir það hve sérhæfð hún er.

„Ef fólk vill sækja sér menntun á sviðinu þá kostar það tíma og sérhæfingu en óvíða hefur verið hægt að ganga að menntun þar sem fólk fær möguleika á að tileinka sér mörg svið náttúrufræðinnar, svo sem jarðfræði, líffræði, landfræði og annarra umhverfisvísinda, auk jafnvel hugvísindahliða náttúrufræðinnar sem fær allt of litla athygli. Mér datt í hug að það væri því gott að geta boðið upp á alhliða námskeiðalínu þar sem snert væri á öllum hliðum náttúrunnar á eins fjölbreyttan og áhugaverðan hátt og mögulegt er.“

Áhuginn alltaf til staðar

Aðspurður að því hvaðan áhuginn á náttúrunni komi segir Snæbjörn að þrátt fyrir að vera algjört borgarbarn þá hafi náttúran alltaf verið alltumlykjandi í hans lífi. „Ég ferðaðist mikið með foreldrum mínum og afa og ömmu um landið strax í bernsku og ætli það hafi ekki einfaldlega setið í mér allar götur síðan. En síðan fóðrar áhuginn sig einfaldlega sjálfur eins og í svo mörgu, þekking leiðir af sér frekari þekkingarleit og hjá mér hefur mér alltaf blundað þörf til að deila þekkingunni. Þannig að já, áhuginn hefur verið til staðar allt mitt líf.“

Námskeið á haustmisseri sem snúa  að náttúru Íslands:

VIRKUSTU ELDSTÖÐVAR ÍSLANDS - BÁRÐARBUNGA
VIRKUSTU ELDSTÖÐVAR ÍSLANDS - GRÍMSVÖTN
JÖKLA- OG LOFTSLAGSBREYTINGAR Á ÍSLANDI
LOFTSLAGSBREYTINGAR Í FORTÍÐ OG FRAMTÍÐ
JARÐSAGA ÍSLANDS
FRÁ LOFTSLAGSVÍSINDUM TIL AÐGERÐA – MÁTTUR EINSTAKLINGANNA

0