Fréttir

Blundar í þér bókari?

Blundar í þér bókari?

Áður fyrr var viðurkenning bókara í raun staðfesting á þekkingu og færni þeirra sem þegar störfuðu sem bókarar en í dag er þetta breytt og fleiri vilja reyna við prófin,“ segir Hulda Mjöll Hauksdóttir, verkefnastjóri, um hina svonefndu Þriggja þrepa leið til viðurkenningar bókara.

„Við höfðum um nokkurra ára skeið boðið upp á undirbúningsnám til viðurkenningar bókara, þegar ákveðið var að bæta við að auki undirbúningi í reikningshaldi og bókhaldi. Við fundum fyrir aukinni eftirspurn þeirra sem vantaði þennan grunn og fundu ekki vettvang til að ná sér í þessa þekkingu og þjálfun. Með Þriggja þrepa leiðinni viljum við mæta þörfum þeirra sem skortir grunnþekkingu og reynslu en vilja skapa sér nýjan starfsvettvang sem viðurkenndir bókarar.“

Hulda Mjöll segir að eftirspurnin sé mikil, en hátt á þriðja tug nema eru á öðru þrepi núna og af þeim muni vafalaust flestir halda áfram á þriðja þrep og útskrifast vorið 2019. „Það eru ekki endilega allir sem ætla sér að fara alla leið því námið er afar hagnýtt, hvort sem nemendur ætla að þreyta prófið til viðurkenningar bókara eða ekki. Í raun hentar þetta öllum sem vilja öðlast skilning og færni í að færa bókhald.“

Ein námslína á hverju misseri

Fyrsta þrepið er Grunnnám í bókhaldi og er þar unnið með bókhaldskerfið Reglu. „Nemendur fá aðgang að raunverulegu bókhaldskerfi og námsgögnin eru raunveruleg bókhaldsgögn,“ segir Hulda Mjöll. „Í náminu er bókhald fært rétt eins og gert er í atvinnulífinu og þessi þjálfun er mikils virði.“

Þegar komið er upp á annað þrep, Grunnnám í reikningshaldi, er farið yfir lög og reglugerðir sem tengjast starfinu, þ.e. meginreglur í reikningshaldi og lög um ársreikninga. Unnið er út frá lagaumhverfi á Íslandi og horft til aðferða sem viðhafðar eru á bókhaldsstofum.

Þriðja þrepið, Undirbúningsnám til viðurkenningar bókara, er svo sett saman úr upprifjun af þrepi eitt og tvö með það að markmiði að undirbúa próftaka sem best fyrir próf til viðurkenningar bókara, en það er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem stendur fyrir þeim.

Spurð að því hvað það taki langan tíma að klára þrepin þrjú segir Hulda: „Þetta er ein námslína á misseri. Sá sem hefur Grunnnám í bókhaldi í haust, heldur áfram í Grunnnámi í reikningshaldi á vormisseri 2019 og Undirbúningsnámi til viðurkenningar bókara haustið 2019. Hann getur svo þreytt prófin til viðurkenningar bókara samhliða undirbúningsnáminu. Þetta þýðir að sá sem hefur námið í haust getur hlotið viðurkenningu sem bókari við útskrift í febrúar 2020.“

Bókarar alltaf eftirsóttir

Hulda segir að í náminu núna sé bæði fólk sem unnið hefur við bókhald og aðrir sem ekki hafa reynslu af bókhaldsstörfum. „Þetta er fólk sem vill dýpka og staðfesta þekkingu sína og enn aðrir sem vilja auka við reynslu sína og færni. Ég heyrði hjá einni sem starfar við bókhald og lauk Grunnnámi í bókhaldi síðastliðið haust, að hún hefði þarna fengið það aukna sjálfstraust sem hana einmitt vantaði í starfi.“

Spurð um það hvort eftirspurn sé eftir bókurum á vinnumarkaði segir Hulda Mjöll: „Bókarar eru alltaf eftirsóttir. Það er ávallt eftirspurn eftir þeim og nánast orðin krafa að viðkomandi sé viðurkenndur bókari.“

0