Fréttir

Erlendir sérfræðingar hjá Endurmenntun

Erlendir sérfræðingar hjá Endurmenntun

Endurmenntun HÍ leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða á hverju ári og einn liður í því starfi er að fá hingað til lands erlenda kennara til að miðla sinni sérþekkingu og reynslu inn í íslenskt atvinnulíf. Á haustmisserinu 2020 verður engin undantekning gerð og er mikil eftirvænting eftir sérfræðingum haustsins.

Samkvæmt venju verður haldið námskeið í ISTQB hugbúnaðarprófunum í september sem Tal Pe’er kennir. Annars vegar er um að ræða grunnnámskeið, þar sem þátttakendum býðst að taka alþjóðlegt vottunarpróf að því loknu, og hinsvegar framhaldsnámskeið.

Verkefnamiðuð vinnurými hafa verið að ryðja sér til rúms hjá íslenskum vinnustöðum á undanförnum árum þar sem fjölbreytt vinnuaðstaða fyrir starfsfólk er í fyrirrúmi til að auka afköst og starfsánægju. Hollenska fyrirtækið Veldhoen + Company hefur verið leiðandi á þessu sviði í um 25 ár og er það sönn ánægja Endurmenntunar að fá Tim de Vos, ráðgjafa fyrirtækisins, til að fjalla um þetta nútímalega vinnufyrirkomulag. Hann mun m.a. fara yfir hvað verkefnamiðuð vinnurými eru og hvað ekki, hvað sé mikilvægt að hafa huga við undirbúning og innleiðingu og hvaða nálganir hafa reynst bestar þar sem fyrirkomulagið skilar miklum árangri.

Undir lok haustmisserisins mun Diana Buttu koma til landsins en hún hefur verið reglulegur gestur hjá Endurmenntun með sínar vinsælu vinnustofur í samningatækni. Vinnustofurnar hafa selst fljótt upp og færri hafa komist að en vildu og því eru áhugasamir hvattir að tryggja sér sitt sæti tímanlega. Nánari upplýsingar um erlendu sérfræðingana og námskeiðin þeirra má finna hér á heimasíðunni okkar.

0