Fréttir

Flutningur lokaverkefna verðandi ökukennara

Flutningur lokaverkefna verðandi ökukennara

Þann 6. desember nk. útskrifast nemendur úr námsbrautinni Ökukennaranám til almennra réttinda. Ökukennaranámið er þriggja missera námsbraut sem er ætluð þeim sem vilja afla sér þekkingar og hæfni til þess að fá löggildingu til að annast ökukennslu fyrir flokk B (fólksbifreið/sendibifreið).

Á dögunum fluttu nemendur lokaverkefni sín fyrir bekkinn. Verkefnin voru fjölbreytt og áhugaverð en þar voru skoðuð ýmis álitamál sem tengjast ökukennslu. Heiða Millý Torfadóttir flutti verkefnið „Af hverju ættu heyrnalausir ekki að mega keyra bíl?“, þar sem hún skoðaði hvort einhver ástæða ætti að vera fyrir því að heyrnalausir ættu ekki að keyra bíl og hafði hún með sér táknmálstúlk til halds og trausts. Heiða Millý fræddi gesti um hvernig ökukennsla heyrnalausra fer fram og lagði hún áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir ökukennara að hafa skilning og lágmarkskunnáttu á táknmáli ásamt því að kunna að nýta táknmálstúlk. Að lokum velti hún upp hugmyndinni hvernig gatnakerfið liti út ef heyrnalausir fengju að hanna það.

Önnur athyglisverð verkefni voru meðal annars hvort ástæða sé til að innleiða sérstök námskeið vegna endurnýjunar ökuréttinda eldri ökumanna, áhættuhegðun ungra ökumanna, áhættuþætti í umferðinni, hvort litur bíla hafi áhrif á umferðaröryggi, umferðarfræðslu í grunnskólum ásamt fleiri áhugaverðum viðfangsefnum. Mikil gleði ríkti þessa tvo daga sem útskriftarnemar fluttu verkefnin sín og er eftirvænting mikil vegna útskriftarinnar.

Við óskum nemendum innilega til hamingju með áfangann.

0