Fréttir

Heimsþekkt námskeið í núvitund

Heimsþekkt námskeið í núvitund

Námskeiðið Search Inside Yourself verður endurtekið  hjá okkur í byrjun apríl en það fékk afar gott mat meðal þátttakenda síðastliðið vor. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Search Inside Yourself Leadership Institute (SIYLI) en Endurmenntun er eini samstarfsaðili þeirra hér á landi. Stofnuninni var komið á laggirnar af Chade-Meng Tan, höfund metsölubókarinnar Search Inside Yourself, en hann þróaði og kenndi námskeið undir sama heiti innan Google um nokkurt skeið.

Upprunnið hjá Google

Chade-Meng Tan var einn af fyrstu starfsmönnum Google og leiddi meðal annars þróun á leitarvélinni fyrir farsíma. Hjá Google byrjaði Meng svo að þróa æfingar og þjálfun sem myndu auka vellíðan í starfi, með því að blanda saman fornum hugleiðsluaðferðum og nýjustu rannsóknum í taugavísindum. Úr varð núvitundarnámskeið sem varð gríðarlega vinsælt innan Google þar sem Meng kenndi starfsfólki fyrirtækisins að takast á við álagið í starfi og daglegu lífi með því að tileinka sér ákveðna tækni og aðferðir. Námskeiðið er enn á dagskrá hjá Google enda hafa rannsóknir sýnt að þeir sem tileinka sér aðferðirnar verða öflugri í starfi, einbeita sér betur, ná meiri samkennd í samskiptum, betri tökum á álagi og almennri starfsgleði.

Vinsælt um allan heim

Í kjölfar vinsældanna skrifaði Meng bókina Search Inside Yourself og stofnaði SIYLI en þar er unnið að því að gera þetta vinsæla námskeið hjá Google aðgengilegt fyrir alla þá sem vilja kynna sér aðferðir núvitundar. Nú þegar hafa þúsundir starfsmanna stofnanna og fyrirtækja um allan heim tileinkað sér núvitundaraðferðir Meng til að styrkja sig í starfi og einkalífi.

Námskeið í hæsta gæðaflokki

Við hjá Endurmenntun erum stolt af því að vera samstarfsaðilli SIYLI á Íslandi og geta boðið upp á námskeið í þessum gæðaflokki. Í ár kennir Brandon Rennels, stjórnandi hjá SIYLI, námskeiðið en hann hefur meðal annars kennt núvitund hjá fjármálafyrirtækjum, framleiðslufyrirtækjum og háskólum um víða veröld.

0