Fréttir

Íslendingar í sérstöðu þegar kemur að fornsögum

Íslendingar í sérstöðu þegar kemur að fornsögum

Kennararnir þrír í sívinsælu Íslendingasagnanámskeiðunum okkar komu öll saman á fundi nú á dögunum og gafst okkur tækifæri til að spjalla örlítið við þau um gang mála.

Ármann Jakobsson, Ásdís Egilsdóttir og Torfi Túliníus hafa ekki einungis ástríðu fyrir íslenskum fornbókmenntum heldur er mikilvægi áframhaldandi fræðslu þeim ofarlega í huga. Ármann segir það mikilvægt að Háskólinn sinni þessu hlutverki af krafti og gefi almenningi færi á að bæta við sig þekkingu burtséð frá fyrri menntun og störfum. En það er einmitt raunin með þátttakendur á námskeiðum þrímenninganna, þangað safnast saman fjölmargir einstaklingar með mismunandi bakgrunn sem allir eiga það sameiginlegt að vera fróðleiksfúsir og spenntir fyrir að kafa djúpt í veröld fornbókmenntanna sem er þjóðinni svo dýrmætur arfur. Íslendingar eru í sérstöðu þegar kemur að þessum sögum enda ekki allar þjóðir sem geta státað að því að geta lesið aldagamla texta á þeirra upphaflega máli. Stemmningin í tímum minnir einnig á fornar hefðir þegar sögurnar voru lesnar saman við eldstæði í torfbæjum og allir fá að taka þátt í umræðum með sínar hugmyndir og kenningar. En tilgangur námskeiðanna er ekki að endursegja sögurnar á einfaldan máta heldur eru þær settar í samhengi við þá tíma sem þær voru ritaðar á. Þannig er sögusviðið stækkað og upplifun þátttakenda verður mun áhrifameiri en við hefðbundinn lestur.

Nú þegar haustmisserinu fer að ljúka eru skráningar opnar á námskeið vormisserisins, þar sem Torfi tekur við af Ásdísi og ætlar með þátttakendur í ferðalag til Grænlands hins forna þegar íslenskir landnemar gerðu sér byggðir þar á hinum ýmsu stöðum. Viðfangsefnin að þessu sinni verða Eiríks saga, Grænlendinga saga og sögur af landafundum. Búast má við að margir bíði spenntir eftir að námskeiðin hefjist í janúar og ekki seinna vænna en að tryggja sér sæti sem fyrst. Þrjár dagsetningar eru í boði og áhugasamir geta valið þann tíma sem hentar HÉR.  

0