Fréttir

Nemandi vikunnar - Erla Sigurðardóttir

Nemandi vikunnar - Erla Sigurðardóttir

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Erla Sigurðardóttir, nemandi í Jákvæðri sálfræði

Við hvað starfar þú?
Ég er grunnskólakennari og listmeðferðafræðingur. 

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Mér fannst þetta passa svo vel fyrir mig sem kennara og listmeðferðafræðing. Ég er að vinna með börnum alla daga og það koma upp ýmis mál. Ég taldi því að það væri gott að læra hvernig hækka megi hamingjustig og vellíðan barnanna. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Það var spennandi og á sama tíma kvíðvænlegt. Ég spurði mig oft áður en ég byrjaði hvort að ég gæti þetta. Ég var hrædd um að mér myndi mistakast. Fyrst var erfitt að sitja hinum megin við kennaraborðið en við vorum svo heppin að læra um festuhugarfar og gróskuhugarfar og það hjálpaði mér heilmikið. Þeir sem eru í gróskunni gefa sér tækifæri á að gera mistök og læra af þeim, bera ábyrgð á sér og gera sitt besta og sýna sér góðvild. 

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Það er miklu skemmtilegra en ég gerði mér grein fyrir, meira af topp kennurum og svo eru bekkjarfélagarnir algjörir gullmolar. Það er frábært að fá að prófa margar aðferðir sem rannsakaðar hafa verið á því hvernig hægt er að efla hamingju og vellíðan og viti menn: Þetta virkar! 

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Það er vel haldið utan um hlutina hjá Endurmenntun. Starfsmenn eru viðkunnalegir og hjálpsamir og allt gengur smurt fyrir sig.

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Einn daginn áttum við að koma og upplifa þöglan dag í skólanum, æfa okkur í núvitund og tala ekki. Ég kom náttúrulega æðandi inn og segi eitthvað alveg út úr korti enda mundi ég ekkert eftir því að það átti ekki að tala. Ég varð alveg miður mín. Allir litu bara á mig, enginn kippti sér neitt sérstaklega upp við þetta. Margir vissu að ég kveið þessum degi, því ég á erfitt með að tala ekki neitt. Ég lærði annars mjög mikið þennan dag. 

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Að gera mitt besta hverju sinni, ekki gefast upp og taka þátt. 

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu? 
„Never get so busy making a living that you forget to make a life.(Dolly Parton) 

Í hverju finnur þú helst hamingju?
Í smáu hversdagslegu hlutunum. Núna tek meira eftir því sem ég á og sem mér þykir vænt um og hlutum sem eru til staðar. Ég finn líka svo mikla ánægju í að gefa af mér.

0