Fréttir

Nemandi vikunnar - Anna Margrét Kaldalóns

Nemandi vikunnar - Anna Margrét Kaldalóns

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Anna Margrét Kaldalóns, flugfreyja, höfuðbeina- og spjaldhryggjarþerapisti og söngkennari, en hún er að ljúka námslínunni Jákvæð sálfræði - diplómanám á meistarastigi.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég hef lengi haft áhuga á mannlegu eðli og hvernig hægt er að hjálpa fólki í átt að betri líðan, bæði andlega og líkamlega. Þegar ég fór að skoða þetta nám sá ég að það hentað mínu áhugasviði ótrúlega vel. Þegar ég komst að því að námið er lánshæft hjá LÍN sá ég fram á að geta látið drauminn rætast og hef notið hverrar einustu mínútu á þessu ferðalagi.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Tilfinningin var ótrúlega góð. Virkilega gott að bæta við sig hafsjó af þekkingu og finna sjálfan sig eflast.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Kannski helst hvað námið er skemmtilegt og hvað það hefur stækkað mig mikið sem manneskju.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Að það er mögulegt að stunda fullt nám samhliða vinnu.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Mitt mottó hefur verið að læra sem allra mest og muna helst allt sem ég heyri og les, ásamt því að njóta hvers einasta kennsludags í botn.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Engin ein saga stendur upp úr, það hefur bara verið mjög skemmtilegt að fylgjast með samnemendum mínum eflast og dafna í náminu.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Láttu drauminn rætast, þú græðir alltaf á því. Fólk sér frekar eftir því sem það gerir ekki heldur en því sem það gerir.

Í hverju finnur þú helst hamingju?

Ég finn hamingjuna í endalaust mörgu - eiga góðar stundir með krökkunum mínum, vera úti í náttúrunni, spjalla við góða vini, hlusta á góða tónlist, lesa góðar bækur og mörgu fleiru. Ég held að það sé hægt að finna hamingjuna í nánast öllu ef maður leggur sig eftir því. Þetta er jú allt undir okkur sjálfum komið.

0