Fréttir

Nemandi vikunnar - Drífa Jenný Helgadóttir

Nemandi vikunnar - Drífa Jenný Helgadóttir

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Drífa Jenný Helgadóttir nemandi í sérnámi í hugrænni atferlismeðferð.

Í hvaða námi ert þú?
Ég er í sérnámi í hugrænni atferlismeðferð sem er tveggja ára nám með vinnu. 

Við hvað starfar þú?
Ég er sálfræðingur á Barnaspítalanum.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Hugræn atferlismeðferð er meðferðarnálgun sem ég nota mikið í minni vinnu sem sálfræðingur. Þegar boðið var upp á þetta nám með vinnu fannst mér tilvalið að nota tækifærið og dýpka þekkingu mína í meðferðinni og því sló ég til. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Það var bara mjög góð tilfinning, ég þekkti nokkra kollega sem voru einnig að byrja í þessu námi sem var skemmtilegt.
 
Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Það kom mér aðeins á óvart hversu vel er að náminu staðið, þ.e hversu góðir kennarar eru og mikill metnaður lagður í kennslu og að gera námið sem best. Námið er einnig mjög skemmtilegt sem kannski kom ekki beint á óvart en er mikill kostur við námið.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Mér finnst andrúmsloftið gott þar, vel tekið á móti manni og fínt að geta skroppið í Hámu þegar lítill tími gefst til langra hádegisverða.
 
Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Í einni laugardagslotunni þá var mikið í gangi á heimilinu mínu og þar sem ég var í skólanum þurfti ég að svara skilaboðum að heiman. Í miðjum kliðum þá rétti kennarinn mér óvænt hljóðnema og bað mig að lesa upp af glæru fyrir hópinn.  Ég var þá með símann minn í höndunum en hún hafði sem sagt verið að fylgjast með mér og greip inní á þennan hátt. Ég lagði símann frá mér og las upp af glærunni. Mér fannst þetta svolítið kómískt.
 
Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Mitt mottó hefur verið að viða að mér eins mikið að nýrri þekkingu og ég mögulega get og hafa gaman af því sem ég er að gera.
 
Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Mitt ráð er að taka ekki of langan tíma í að hugsa um það heldur láta verða af því. Skipuleggja sig vel og þá gengur þetta vel upp.

Hvað heillar þig mest í fari annarra?
Mér finnst fólk sem er með góðan húmor og getur hlegið að sjálfu sér heillandi. Einnig jákvætt og duglegt fólk sem er sanngjarnt og tillitsamt.

0