Fréttir

Nemandi vikunnar - Einar Skúlason

Nemandi vikunnar - Einar Skúlason

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Einar Skúlason, einn af nemendum námsbrautarinnar Leiðsögunám á háskólastigi - staðnám eða fjarnám.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég ætlaði nú ekki í þetta nám, þar sem ég er búinn að lesa mér töluvert til í gegnum árin sjálfur og hef þannig undirbúið fjölbreyttar ferðir. Svo ákvað ég að láta slag standa og prófa að taka nokkra kúrsa og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég tek námið á hálfri ferð og ætla að ljúka því á tveimur vetrum í stað eins.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Það var mjög góð tilfinning enda hef ég mikinn áhuga á flestöllu í náminu. Það er líka gott að fá háskólakennara og aðra sérfræðinga til að dýpka skilning manns á hverri fræðigrein auk þess sem umræður verða oft mjög góðar. 

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Ég hélt að ég væri vel staddur með sumt af því sem hefur verið fjallað um en komst að því að þekking mín risti ekki eins djúpt og ég hélt. Það hefur verið gott að bæta úr því ásamt því að vera samferða öðrum nemendum og kynnast þeim.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Það er góð þjónusta og starfsfólk og aðstaðan er góð, svo er líka auðvelt að ná fyrirlestrunum á nemendasvæðinu ef maður missir af tíma. Það er líka lögð áhersla á að birta sem mest af upplýsingum um lesefni og fleira slíkt á nemendasvæðinu og það er gott að ganga í þann brunn.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að alltaf er hægt að bæta við sig þekkingu og dýpka skilning.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Ég man ekki eftir neinu ákveðnu, en það er oft hlegið í tímum eða í kaffipásum. Fólk kemur úr ólíkum áttum og allir hafa eitthvað skemmtilegt fram að færa. Ég hvet nemendur til að spjalla við aðra og taka virkan þátt í kennslustundum með spurningum og innleggi í umræður. Þannig fær maður enn meira út úr þessum tíma.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Þetta snýst allt um skipulag. Það er vel hægt að fara fyrr að sofa um helgar, vinna verkefnin snemma og eiga svo góðar samveru- eða frístundir eftir hádegi. Það er mannbætandi og hressandi að fara í nám og ekki verra þegar það er jafn sveigjanlegt og þetta.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi og af hverju?

Ég get nefnt fleiri hundruð staði. Sumir eru uppáhaldsstaðir vegna landslags, gróðurs, klettamyndana eða annarra jarðmyndana, en aðrir vegna sögunnar. Það getur verið vegna margra samverkandi þátta og ekki bara vegna einhverra liðinna atburða í lífi annarra heldur einnig minninga minna frá stöðunum. Ef ég ætti að nefna einn uppáhaldsstað þá myndi ég eflaust skipta um skoðun á nokkurra mínútna fresti! Ég get þó sagt að ferðavenjur mínar hafa aðeins breyst eftir að ferðamönnum fór fjölgandi. Ég fer minna um fjölsótta staði en áður og horfi enn meira til vesturs og Vestfjarða, Norðurs og Austurlands. Annars erum við heppin að búa í landi sem er stöðugum breytingum undirorpið vegna jarðhræringa, jökla, veðra og vinda. Það er magnað að verða vitni að því hvernig staðir breytast frá ári til árs þótt auðvitað hafi ég miklar áhyggjur af loftslagsáhrifum og hröðum breytingum af þeim sökum.

0