Fréttir

Nemandi vikunnar - Erla María Kristinsdóttir

Nemandi vikunnar - Erla María Kristinsdóttir

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Erla María Kristinsdóttir, en hún lauk nýverið námslínunni Hugur og heilbrigði - gerðu gott líf betra.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég varð að hverfa af vinnumarkaði fyrir 10 árum síðan vegna veikinda og hef síðan verið að byggja mig upp andlega og líkamlega. Ég hef lengi haft áhuga á núvitund og hvernig maður getur lifað á líðandi stund og mér fannst þetta nám þannig byggt upp að það myndi hjálpa mér í uppbyggingarferli mínu.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Það var ögrandi en einnig mjög örvandi. Það gefur manni vellíðunartilfinningu að læra eitthvað nýtt.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Hvað þetta hefur verið skemmtilegt, fræðandi og gefandi nám. Mjög áhugaverðir fyrirlestrar og frábærir kennarar.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Frábært starfsfólk og mjög góð aðstaða. Allir jákvæðir og alltaf tilbúnir að aðstoða ef þörf er á.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að gera alltaf mitt besta og fara út fyrir þægindarammann, þótt það geti verið óþægilegt.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Í náminu var fjölbreyttur hópur með ólíkan bakgrunn og mér fannst frábært hvað við náðum vel saman. Í hópnum ríkti traust og samkennd og við gátum bæði hlegið og grátið saman.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Ég er ekki lengur á vinnumarkaði, en hef þá trú að óháð því hvað maður starfar geti maður alltaf haldið áfram að bæta sig og gera lífið innihalds- og kærleiksríkara. Nám og aukin þekking eykur sjálfstraustið og maður verður ánægðari með sjálfan sig. Við mannfólkið eigum það til að mikla fyrir okkur hlutina og látum það oft stöðva okkur. Ég hvet alla til að taka skrefið og hefja nám sem vekur áhuga, getur eflt þá sem manneskjur og nýst í lífi og starfi. Hver ferð hefst á einu skrefi!

Hvernig finnst þér best að byrja daginn?

Eftir góðar teygjur og næringarríkan morgunverð er ég tilbúin að takast á við daginn með jákvæðni og brosi.

0