Fréttir

Nemandi vikunnar - Halldóra Traustadóttir

Nemandi vikunnar - Halldóra Traustadóttir

Á hverjum vetri stunda nokkur hundruð nemendur nám hjá okkur í Endurmenntun á námsbrautum sem spanna allt frá einu misseri og upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þennan flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Halldóra Traustadóttir, sérfræðingur á viðskiptasviði í höfuðstöðvum Íslandsbanka og nemandi í námslínunni Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég hef starfað mikið sem verkefnisstjóri í stórum og smáum verkefnum hjá Íslandsbanka og mig langaði til að fá vottun sem verkefnisstjóri.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Frábær tilfinning! Mér finnst að maður þurfi reglulega að ögra sjálfum sér og bæta við sig þekkingu. Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HÍ fyrir rúmum 20 árum og kláraði MBA nám frá HR fyrir rúmum 10 árum þannig mér fannst kominn tími á meira nám.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Námið fór fram úr væntingum mínum sem var mjög ánægjulegt. Kennararnir eru frábærir og námsefnið mjög praktískt. Ég lærði margt nýtt sem mun nýtast mér vel.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Afslappað andrúmsloft og gæði námsins.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Hafa gaman og fara út úr þægindarammanum mínum.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Mér fannst mjög gaman og gagnlegt að gera mína persónulegu stefnumótun sem var verkefni á haustönninni. Auk þess að setja mér markmið fyrir árið gerði ég bucket lista yfir nýja hluti sem ég ætlaði að gera á árinu. Ég er búin að tékka út af listanum að prófa sjósund, fara á gönguskíðanámskeið og er búin að kaupa miða á Ed Sheeran tónleika í sumar. Margt fleira skemmtilegt er framundan. Þetta er ótrúlega hvetjandi.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Bara að láta drauma sína rætast og að láta vaða. Þetta snýst bara um að hafa áhuga og forgangsröðun.

Hvaða eiginleika telur þú vera mesta styrk góðs leiðtoga?

Að hafa skýra sýn og eiginleikann að hrífa fólk með sér. Svo finnst mér mikilvægt að leiðtogar og fólk almennt taki sig ekki of alvarlega og hafi húmor fyrir sjálfu sér.

0