Fréttir

Nemandi vikunnar - Ingunn Óladóttir

Nemandi vikunnar - Ingunn Óladóttir

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Ingunn Óladóttir, en hún er að ljúka námslínunni Ökukennaranám til almennra réttinda.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég hafði verið spennt fyrir ökukennaranámi í langan tíma og var því ekki lengi að hugsa mig um þegar ég sá námið auglýst í Endurmenntun. Ég mætti á kynningarfund um námið og sótti svo um. Ég var ótrúlega ánægð þegar ég fékk staðfestingu á því að ég hefði komist inn því fleiri sóttu um en komust að.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Ég upplifði bæði kvíða og spennu að byrja aftur í skóla. Sumt í náminu er eitthvað sem ég tengi við sem grunnskólakennari en annað er algjörlega nýtt fyrir mér og reynir meira á. Þetta er mjög skemmtilegt og mæli ég algjörlega með því að breyta til og skella sér í nám.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Námið hefur verið skemmtilegt og ég er alltaf spennt fyrir að hitta hópinn en við mætum fjóra daga í mánuði í staðarlotu. Það er gott að ögra sjálfum sér með nýjum verkefnum.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Andrúmsloftið er heimilislegt. Starfsfólkið er einnig hjálplegt og leggur sig fram um að fólki líði vel.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að gera mitt besta og hafa gaman af því sem ég er að gera.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Hópurinn sem stundar námið með mér er alveg frábær. Við erum eins ólík og við erum mörg, en liðsheildin er mjög góð. Stelpurnar eru í minnihluta en við hugsum vel um strákana, á bóndadaginn mættum við t.d. með veitingar sem vakti mikla lukku.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Það er mikilvægt að hafa gaman af náminu og gera ekki óraunhæfar kröfur til sjálfs sín á öllum vígstöðvum.

Hvaða tækifæri sérðu framundan að loknu námi?

Ég er bjartsýn fyrir framtíðinni og hef hug á að nýta námið samhliða þeirri vinnu sem ég stunda í dag.

0