Fréttir

Nemandi vikunnar - Júlíus Jóhannsson

Nemandi vikunnar - Júlíus Jóhannsson

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Júlíus Jóhannsson, nemandi í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala.  

Við hvað starfar þú?
Ég er fasteignasali hjá Kaupsýslunni fasteignasölu. 

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Vegna vinnu minnar þá er það nauðsynlegt og í raun og veru löngu tímabært. Árið 2015 voru sett ný lög sem kveða á um að þeir sem vinna við fasteignasölu eiga að vera löggiltir fasteignasalar. Ég er mjög hlynntur þessari breytingu og finnst frábært að þessi lagabreyting sé komin til framkvæmda.  

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Hún var ekki svo slæm, ég var fullur tilhlökkunar og fann líka fyrir kvíða yfir því að takast á við nýjar áskoranir. Þetta er strembið nám þar sem ég er í fullri vinnu, með fjölskyldu og rek eigið fyrirtæki. Ég þurfti að stilla tímaplanið algjörlega upp á nýtt.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Mér finnst ég græða helling á þessu og hugsa núna að ég hefði átt að vera löngu búinn að drífa mig af stað í þetta nám.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Það er gott að vera hjá Endurmenntun, starfsfólkið er mjög almennilegt og skemmtilegt og ég upplifði mjög góða persónulega þjónustu. Kaffið er frábært og gott að lauma sér í smá bakkelsi.

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Já það er nú margt sem hefur komið upp á þessum tíma. Ætli það sé ekki þegar að ég ákvað að fara í lokapróf með ælupest. Þegar ég sest þá segir tímavörðurinn að enginn megi fara út eða á salernið fyrir en að einni klukkustund liðinni. Ég vona það besta og hefst handa við að leysa prófið. Ég er aðeins búinn að vera í 20 mín í prófinu þegar ég finn að það er allt að koma upp og ég óska eftir því að fara á salernið og hún segir nei, þá stóð ég upp og sagði, þetta þolir enga bið og strunsaði út og beint á salernið. Það urðu engir eftirmálar af þessu atviki J

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Að klára öll verkefni sem ég hef byrjað á eins vel og ég mögulega get.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Já endilega slá til og byrja, þetta er ekkert hættulegt, nám er vinna og ekkert nema vinna.

Hvernig er þitt drauma heimili?
Það er í raun þar sem ég bý núna, í Grafarholtinu með konunni minni og tveimur sonum 3ja og 10 ára. 

0