Fréttir

Nemandi vikunnar - Kristján Sturluson

Nemandi vikunnar - Kristján Sturluson

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp verðum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Við byrjum á Kristjáni Sturlusyni, nemanda í jákvæðri sálfræði. 

Í hvaða námi ert þú?
Ég er í diplómanámi á meistarastigi í jákvæðri sálfræði.

Við hvað starfar þú?
Ég stend á ákveðnum tímamótum. Ég starfaði sem sérfræðingur á greiningasviði Gallup en var í þessari viku að hefja störf hjá SÍMEY, símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar sem verkefnastjóri.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Fann fyrir löngun að fara út fyrir þægindarammann og ögra sjálfum mér. Það heillaði mig einnig að geta stundað nám með vinnu. Fannst síðan þetta nám í jákvæðri sálfræði höfða mjög sterkt til mín; hver vill ekki læra um vellíðan, hamingju og styrkleika, svo fáein dæmi séu tekin.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Hún var mjög góð, eiginlega bara eins og gott bland í poka; ákveðin spenna, eftirvænting, tilhlökkun og svo nokkur fiðrildi í maganum. Það myndaðist strax einhver orka og kraftur í nemendahópum, mjög áhrifaríkt að upplifa það.
 
Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Fyrst og fremst hvað þetta nám hefur verið fjölbreytt og hverju maður hefur fengið að kynnast, t.d. núvitund, styrkleikum og dyggðum. Það hafa komið afar færir og flottir kennarar, margir hverjir erlendir og allir kennarar eiga það sameiginlegt að vera afar áhugasamir um kennsluna og nemendur sína. Ég er síðan ekki frá því að maður hafi séð eða upplifað nýja hlið á manni sjálfum í þessu námi, uppgötvað eða áttað sig á ákveðnum hlutum.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Ætli það sé ekki andrúmsloftið en það er afslappað og þægilegt. Einnig er aðstaðan góð og svo er ljómandi fínt mötuneyti í næstu byggingu. Starfsfólk Endurmenntunar er síðan einstaklega vingjarnlegt og hefur gott viðmót gagnvart nemendum. Allt þetta á sinn þátt í því að það er einhver svona feel-good factor gagnvart Endurmenntun.
 
Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Ég er eini karlmaðurinn í nemendahópnum þennan vetur í jákvæðri sálfræði, er einn með 29 konum. Í einni námslotunni þegar við vorum í styrkleikavinnustofu leit norskur kennari á mig og mér fannst hann segja "You look like a guy" og brosti til mín, ég bara brosti á móti og hló. En hann sagði víst "You lucky guy" og fannst ég afar heppinn að tilheyra þessum nemendahópi sem ég vitaskuld er. Það hafa verið forréttindi að tilheyra þessum öfluga og skemmtilega hópi.
 
Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Einhvern tímann tamdi ég mér það viðhorf að betra sé að fara á kostum en taugum og hef haft það bakvið eyrað síðan. Reyni eftir fremsta megni að hafa gaman af því sem ég er að gera og að tileinka mér grósku hugarfar ásamt því að njóta augnabliksins.
 
Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Vera óhrædd og ófeimin að stíga skrefið, kýla á þetta. Það er svo magnað að takast á við áskorun og klífa fjallið í stað þess að virða það bara fyrir sér, hafa kjark og þor að leggja upp í leiðangurinn og njóta svo ferðalagsins á meðan því stendur og þegar upp er komið. Það gerist lítið nema maður þori að taka skrefið. Mennt er máttur.
 
Í hverju finnur þú helst hamingju?
Þegar stórt er spurt. Ég tel að lykilinn að hamingju, eins og með flest annað í lífinu, sé fyrst og fremst spurning um jafnvægi og að vera meðvitaður um það og leggja áherslu á það sem veitir manni vellíðan og hamingju. Samverustundir með fjölskyldu og vinum, húmor, hlátur og hreyfing er mín uppskrift að hamingju. Svo sakar ekki að fá sér góða flatböku við og við.

0