Fréttir

Nemandi vikunnar - Kristján Sturluson

Nemandi vikunnar - Kristján Sturluson

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Kristján Sturluson, nemandi í Leiðsögunámi á háskólastigi.  

Við hvað starfar þú?
Ég er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. 

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Áhugi á landinu en auðvitað líka möguleikinn að geta tekið að mér verkefni sem leiðsögumaður. Námið er yfirgripsmikið og margt áhugavert sem er farið yfir varðandi samfélag, sögu og náttúrufar. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Góð tilfinning. Ég hef gert þetta áður þegar ég tók MBA nám fyrir rétt rúmum áratug. Hef einnig komið nokkuð að kennslu á háskólastigi og gaman að prófa að vera „hinum megin við borðið". 

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Ég get ekki sagt að neitt hafi komið mér sérstaklega á óvart. Ég var búinn að kynna mér efnið vel og þekkti vel til aðstæðna hjá Endurmenntun frá MBA náminu á sínum tíma. 

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Sveigjanleiki, gat valið á milli þess að vera í fjarnámi og staðnámi.  

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Það sem var skemmtilegt, reyndar ekki í tíma, var að hitta eina alnafnann sem ég á frammi á gangi. Við höfum vitað af hvor öðrum og hann hefur stundum fengið sendingar sem hafa verið ætlaðar mér. 

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Að hafa gaman. 

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Að gera sér grein fyrir að þessu fylgir álag og vinna. Fólk þarf að hafa skilning á því fyrst og fremst frá fjölskyldunni en einnig vinnuveitanda. Þetta mun alltaf bitna á einhverju t.d. þátttöku í félagsstarfi. Fólk þarf að hafa mikinn áhuga en ef hann er til staðar er engin ástæða til að hika. 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi og af hverju?
Það er Dalasýslan eins og hún leggur sig, þar er sagan tengd nánast hverjum einasta stað.

0