Fréttir

Nemandi vikunnar - Lára Aðalsteinsdóttir

Nemandi vikunnar - Lára Aðalsteinsdóttir

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem árlega stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar, erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Lára Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, en hún lauk nýverið námslínunni Forysta til framþróunar - leið stjórnenda til aukins árangurs.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég vildi efla mig sem stjórnanda og fá verkfæri til að leiða breytingar. Þetta nám var eins og klæðskerasaumað fyrir mig. Það er alltaf gott að endurmennta sig til að skerpa á grunninum og bæta við sig nýrri þekkingu og aðferðum.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Það er frábært að fá reglulega tækifæri til endurmenntunar, það endurnærir mann og eflir.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Í sjálfu sér ekkert sérstakt. Námið var mjög vel uppbyggt og vel fléttað saman fræðum og þeim verkfærum sem við lærðum að nota. Ég á eftir að nýta mér margt af þessu.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Námskeiðin sem boðið er upp á uppfylla vel þarfir okkar sem erum á vinnumarkaði og tímasetningarnar er auðvelt að sníða að vinnu og heimilislífi. Ég er þakklát fyrir að hafa getað fléttað saman nám og starf með þessum hætti og Endurmenntun á mikið hrós skilið fyrir sitt starf.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að mæta því með opnum hug.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Það var mikið hlegið í tímum, andinn var góður og oft urðu líflegar umræður um námsefnið. Verkefnin sem við unnum voru raunveruleg og gaman var að geta rætt í hópnum þær fjölmörgu áskoranir sem við mætum í ólíkum störfum okkar. Þar kom margt gagnlegt og skemmtilegt fram.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Bara drífa sig af stað! Það gefur manni mikið að dusta rykið af því sem maður hefur þegar lært, um leið og maður lærir margt nýtt, kynnist nýju fólki og eflir sjálfan sig.

Hvaða tækifæri sérðu framundan að námi loknu?

Ég á eftir að nýta mér margt í núverandi starfi af því sem ég hef lært og svo er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér, ég er tilbúin fyrir nýjar áskoranir.

Hvað gerir einstakling að góðum leiðtoga?

Góður leiðtogi veit hvert hann stefnir og nær að hrífa aðra með sér þangað.

0