Fréttir

Nemandi vikunnar - Margrét Geirsdóttir

Nemandi vikunnar - Margrét Geirsdóttir

Til að veita örlitla innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar, en hún er að ljúka námslínunni Fjölskyldumeðferð - diplómanám á meistarastigi.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég hafði lengi ætlað að bæta við mig þekkingu á mínu fagsviði. Fjölskyldumeðferðarnámið varð fyrir valinu þar sem ég tel að það eigi eftir að nýtast mér mjög vel í störfum mínum – sem það hefur reyndar þegar gert. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Hún var fín! Ég kveið þó fyrir auknu álagi vegna fjarveru frá vinnu. Sá kvíði reyndist ekki ástæðulaus en á móti kemur hvað það er hollt og gott að bæta í reynslu- og þekkingarbrunninn. Það er ómetanlegt.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Í sjálfu sér hefur ekkert komið á óvart. Námið hefur sína kosti og galla en kostirnir eru langtum fleiri. 

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Starfsfólkið! Og auðvitað fjölbreyttir námsmöguleikar.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að njóta.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Ég man ekki eftir neinu sérstöku í svipinn en ég svo lánsöm að í bekknum mínum eru bráðskemmtilegar stelpur og því hafa hláturinn og gleðin óspart fengið að njóta sín. Þar eru hins vegar engir karlar - hvað er málið, strákar?

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Stígðu skrefið! Vertu samt búin/n að skipuleggja það sem þarfnast skipulagningar og ekki síður að undirbúa þig og fjölskylduna. Þá muntu njóta og uppskera.

Hvaða tækifæri sérðu framundan að loknu námi?

Ég mun nýta það sem ég hef lært til þess að vinna áfram í mínu starfi að þróun þjónustunnar og mæta nútímaþörfum betur. Mig langar til að bæta því við að ég hef kynnst frábæru fólki í þessu námi og myndað tengsl sem koma til með að vara. 

0