Fréttir

Nemandi vikunnar - Sigríður Lára Haraldsdóttir

Nemandi vikunnar - Sigríður Lára Haraldsdóttir

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Sigríður Lára Haraldsdóttir, nemandi í Fjölskyldumeðferð.

Við hvað starfar þú?
Ég hef undanfarin ár unnið á Skammtímaheimili fyrir unglinga, sem Barnavernd Reykjavíkur rekur. Nýlega hóf ég störf hjá samskiptasetri Erindis, en Erindi eru samtök um samskipti og skólamál. Þar geta fjölskyldur, skólastofnanir, íþróttafélög og allir sem koma að samskiptum og börnum leitað ráðgjafar, endurgjaldslaust. 

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Ég hef lengi haft áhuga á málefnum fjölskyldna, sérstaklega foreldra og barna. Í gegnum starfið mitt hef ég orðið áþreifanlega vör við mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, það er lítið mál að leysa lítil vandamál, en stærra mál að leysa stærri vandamál. Þegar ég heyrði um þetta nám og las mér til um það fann ég samhljóm með mínum gildum og viðhorfum og því sem námið stendur fyrir. Þegar ég fór svo á kynninguna á náminu varð ég enn sannfærðari. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Tilfinningin var bara góð. Sérstaklega þegar maður er að læra það sem maður brennur fyrir.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Í raun hefur ekkert komið mér á óvart. Ég var nokkuð viss um að þetta væri það sem mig langaði að læra og það hefur bara staðist.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Mér finnst þægilegt hvað þetta er lítil eining og námið er persónulegt. 

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Enga sérstaka en ég er í afskaplega skemmtilegum og líflegum hópi. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að einhver kemur með einlægt gullkorn inni í miðri kennslustund og við hinar höfum dottið í hláturskast sem reynt er að fela með misjöfnum árangri. Það er alltaf skemmtilegt og lífgar upp á tilveruna. 

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Það sama og í lífinu sjálfu. Fylgja hjartanu og gera það sem gerir mann hamingjusaman. 

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Að kynna sér málið vel áður en þeir ákveða að þetta gangi ekki upp. Ræða við sína yfirmenn, ef við á, og sjá hvort þeir veiti ekki ákveðinn sveigjanleika til að geta sinnt námi og vinnu án þess að það hafi mikil áhrif á fjölskyldulíf viðkomandi. Allt frekara nám eflir fólk og því ætti viðkomandi að vera enn betri starfskraftur en ella. Þannig græða allir, bæði starfsmaðurinn og vinnustaðurinn.

Hvað heillar þig mest í fari annarra?
Þegar fólk er jákvætt og lífsglatt og er óhrætt við að fylgja því sem það brennur fyrir, en ber jafnframt virðingu fyrir skoðunum annarra.

0