Fréttir

Nemandi vikunnar - Stefán Antonsson

Nemandi vikunnar - Stefán Antonsson

Til að veita innsýn í þann stóra hóp sem á hverjum vetri stundar nám á námsbrautum Endurmenntunar erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Nemandi vikunnar að þessu sinni er Stefán Antonsson, sölumaður á fasteignasölunni Þingholt, nemandi í námslínunni Nám til löggildingar fasteigna- og skipasala.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?

Ég hef starfað við fasteignasölu í mörg ár en nú eru komin ný lög um sölu fasteigna sem krefjast þess að sölumenn fasteigna hafi löggildingu sem fasteignasalar til að sinna þessu starfi.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?

Það var bara spennandi, gaman að takast á við eitthvað nýtt og góð tilfinning að vera nú á lokametrunum að klára námið.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?

Ég þekki marga sem hafa farið í gegnum þetta nám og var vel upplýstur um uppsetninguna á því, það er því ekki margt sem hefur komið á óvart.

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?

Að geta stundað námið með vinnu og hafa tækifæri til að hlusta á upptökur af öllum fyrirlestrum, ekki skemmir heldur að hafa þessa góðu kennara.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?

Að hafa gaman af þessu, kynnast samnemendum og að sjálfsögðu að efla mína kunnáttu.

Kanntu skemmtilega sögu úr náminu?

Í sjálfu sér ekki, en þetta hefur verið skemmtilegur tími og ótrúlega fljótur að líða, mér finnst þetta hafa rétt verið að byrja.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?

Ekki hika við að skella sér í draumanámið, en gera sér hins vegar grein fyrir því að það getur verið mikil vinna og álag að stunda nám með fullri vinnu.

Hvaða tækifæri sérðu framundan að loknu námi?

Ég mun halda áfram að starfa við fasteignasölu en nú sem löggiltur fasteignasali!

Hvernig er þitt draumaheimili?

Draumaheimilið mitt er meðalstórt einbýli, staðsett þar sem snjóar ekki og er þokkalega hlýtt allt árið.

0