Fréttir

Nemandi vikunnar - Stefanía Sæmundsdóttir

Nemandi vikunnar - Stefanía Sæmundsdóttir

Á hverjum vetri eru nokkur hundruð nemendur sem stunda nám hjá okkur í Endurmenntun sem er allt frá einu misseri upp í tvö ár. Til að veita örlitla innsýn í þann flotta hóp erum við vikulega með einn nemanda í nærmynd. Að þessu sinni er það Stefanía Sæmundsdóttir, nemandi í námslínunni Hugur og heilbrigði

Í hvaða námi varst þú?
Ég var í glænýju námi: Hugur og heilbrigði, gerðu gott líf betra. Námið var þríþætt. Við kynntumst aðferðafræði ACT í sálfræði þar sem við skoðuðum gildi okkar í lífinu og hvernig við setjum okkur markmið og tengjum þau við gildin okkar. Annar hluti námsins var almenn fræðsla um næringu, fjallað var um meltingarveginn og örveruflóruna ásamt því að sýna hvernig tengsl fæðu við ýmsa sjúkdóma eru. Þriðji hluti námsins fjallaði um núvitund þar sem við kynntumst sjálfstýringu hugans og lærðum að beita aðferðum núvitundar við að kyrra hugann og njóta þess að vera hér og nú. 

Við hvað starfar þú?
Ég er líffræðingur að mennt og starfa í þróunardeild mæliaðferða á þróunarsviði hjá Actavis í Hafnarfirði.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Ég er í mjög krefjandi starfi, sem oft veldur miklu álagi hjá mér. Ég hef sótt styttri námskeið í streitustjórnun o.þ.u.l. en þau námskeið hafa ekki dugað til að hjálpa mér. Mig vantaði eitthvað meira, lengra og ítarlegra, þá rakst ég einmitt á kynningu á þessu námi í maí í fyrra, fór á kynninguna og sá strax að þetta var það sem ég var að leita að. 

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Hún var mjög góð, ég var tilbúin og mig langaði í þetta nám. Ég var því full eftirvæntingar þegar ég mætti í fyrsta tímann í september síðastliðnum. 

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Hvað það voru fáir karlmenn sem sóttu þetta nám. Þeir voru tveir fram í desember en svo eftir áramót var einungis einn eftir af rúmlega 30 manna hópi. Fólk af báðum kynjum á fullt erindi í námið. Það kom mér líka talsvert á óvart að hluti af hópnum, sem sótti námið, var utan af landi (Vestmannaeyjum, Sandgerði, Borgarnesi, Borgarfirði, Snæfellsnesi og Akureyri). Það þarf talsverða elju að þurfa að fara alla þessa leið til að stunda nám hálfsmánaðarlega yfir veturinn. 

Hvað líkar þér best við Endurmenntun?
Mér líkar fyrst og fremst vel við fjölbreyttnina og gæði kennslunnar. Það er líka alltaf gaman að kynnast öðrum nemendum.

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr náminu?
Í fyrsta tímanum í núvitundarhlutanum tókum við rúsínuæfinguna. Þessi æfing kennir manni að nota öll skilningarvitin við þá athöfn að borða eina rúsínu. Við byrjuðum á að virða fyrir okkur rúsínuna með augunum, snertum hana með fingurgómunum og vörunum, fundum lyktina af rúsínunni, hlustuðum á hana á meðan við þrýstum á hana milli fingurgómanna áður en við settum hana upp í munninn og veltum henni á tungunni, loks bitum við í hana og tuggðum þar til hún var nánast orðin að vökva í munninum. Þá heyrðist í nemandanum frá Akureyri: „Og ég keyrði 800 km til þess að borða eina rúsínu.“ 

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Að njóta og vera til staðar. Ég skipulagði vinnuna þannig að ég gat tekið strætó og mætt vel fyrir tímann á föstudögum. Ég náði að kúpla mig frá amstri vinnunnar á leiðinni í strætó, komið jafnvægi á hugann og var tilbúin að meðtaka námsefnið. Svo naut ég þess að ganga eftir trjágöngunum fram hjá Þjóðminjasafninu og að aðalbyggingu Háskólans, smá nostalgía frá háskólaárunum. 

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og fara í nám með vinnu?
Að vera búin að semja við heimilismeðlimi um að tíminn sem fer í námið sé þinn tími og að það sé ljóst að þú þurfir að fá stuðning og skilning þeirra á því að námið gangi fyrir.

Hvernig finnst þér best að byrja daginn?
Svarið er ekki beint í anda námsins, ég verð að segja að blunda örlítið lengur.

 

0