Fréttir

Torfi Tulinius kennir Grettis sögu

Torfi Tulinius kennir Grettis sögu

Íslendingasagnanámskeiðin hafa verið þau vinsælustu hjá Endurmenntun um árabil en að jafnaði sækja þau um 250 þátttakendur á hverju misseri.

Síðustu misseri hefur Ármann Jakobsson kennt Íslendingasagnanámskeiðin en hann er nú á leið í rannsóknarleyfi. Við erum hins vegar svo lánsöm að fá Torfa Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, til að sjá um kennsluna á vormisseri í hans stað. Torfi ætlar að fjalla um Grettis sögu Ásmundarsonar sem er ein af vinsælustu Íslendingasögum þjóðarinnar.

Við hittum Torfa og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar.

Hvernig leggst kennslan í þig?

Mjög vel. Ég hlakka til að kafa ofan í söguna með góðum hópi. Mér þótti mjög skemmtilegt að vera gestafyrirlesari hjá Ármanni og kynnast fólkinu sem sækir þessi frægu námskeið um Íslendingasögurnar. Ég hafði raunar áður verið gestur bæði Magnúsar og Jóns Böðvarssonar. Þessi námskeið eru merk menningarstofnun og það er mér sannur heiður og mikil gleði að fá að sjá um námskeiðið sem hefst í janúar.

Af hverju velur þú Grettis sögu?

Þótt hún hverfist að mestu leyti um eina persónu, er sagan ótrúlega fjölbreytt að efni. Það er barist við berserki og afturgöngur. Skyri er slett í matarbúrum og gamnað sér við jötnameyjar í öræfadölum. Fólk er fólk en í því býr líka eitthvað annað, órætt og stórfenglegt. Grettir er heillandi persóna. Hann er hin fullkomna söguhetja, bæði harmræn og göfug, en auk þess dularfull, því það er ráðgáta að svo vel gerður maður skyldi líka verða fyrir svo mikilli ógæfu. Ljóst er að sú eða sá sem setti söguna saman hefur dálæti á persónu sinni og lifir sig sterkt inní örlög hennar. Þar að auki er Grettir gæddur miklum persónutöfrum, talar í málsháttum og sýnir mikinn húmor, þrátt fyrir harmþrungin örlög sín. Sagan fer með lesendur sína um víðerni Íslands, byggðir jafnt sem óbyggðir, um helstu svæði norrænna manna á víkingaöld og alla leið til Miklagarðs, eða það sem heitir á vorum dögum Istanbúl. Þar bíða rómantísk ævintýri Þorsteins drómunds, hálfbróður Grettis og hefnanda.

Hver væri Grettir í dag?

Það er áhugavert að velta þeirri spurningu fyrir sér. Það fer allt eftir því hvernig við skilgreinum Gretti. Er hann óknyttapiltur sem lendir utanveltu í samfélaginu og lendir í ógöngum? Væri hann á Hrauninu í dag? Eða er hann öllu heldur sterkur og hæfileikaríkur einstaklingur sem tekur ríkjandi hugmyndafræði of bókstaflega? Er hann ótempraður af heilbrigðri skynsemi og fer út af sporinu, líkt og útrásarvíkingar undanfarinna ára? Svo er líka hægt að lesa hann með gleraugum sálfræðinnar og spekúlera í sambandi hans við sína nánustu. Það verður gaman að reyna að svara þessari spurningu með þátttakendum á námskeiðinu.

Hvaða erindi á Grettis saga við okkur í dag?

Sagan er sígilt bókmenntaverk, eitt af þeim bestu í heiminum. Það fjallar um sameiginlega reynslu hverrar manneskju af því að vera til og á því erindi til okkar í dag sem alla daga.

Fyrir hverja er námskeiðið?

Námskeiðið á einmitt erindi við alla, hvort sem þeir hafa lesið söguna eða vilja kynnast henni í samfloti við aðra. Allir geta fundið í sér samhljóm í Gretti og örlögum hans, „landa vors“ eins og segir í einu handriti sögunnar.

Fjórir hópar

Að þessu sinni verða fjórar mismunandi tímasetningar í boði. Með því að smella á hlekkina hér að neðan má fá nánari upplýsingar um námskeiðin og skrá sig. Snemmskráningu fyrir þriðjudagana lýkur 14. janúar en þann 15. janúar fyrir miðvikudagshópana.

Þriðjudagsmorgunn

Þriðjudagskvöld

Miðvikudagsmorgunn

Miðvikudagskvöld 

0