Fréttir

Vinkonur saman á námskeiðum

Vinkonur saman á námskeiðum

Fjórar vinkonur af Suðurnesjum hafa í mörg ár komið saman á Íslendingasagnanámskeiðin okkar. Þær skiptast á að keyra og hafa um margt að ræða, ekki síst áhugaverða efnisþætti af námskeiðunum, á heimleiðinni.

Sigurbjörg Gróu Halldórsdóttir, Óla Björk Halldórsdóttir, Ásta Arnmundsdóttir og Hildur Ellertsdóttir voru allar kennarar í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ og hafa verið vinkonur í tugi ára. „Fyrir nokkrum árum kom tölvupóstur frá Hildi þar sem hún spurði mig hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir okkur en þá hafði hún séð auglýst námskeið um Sturlungu hjá Endurmenntun með Magnúsi Jónssyni“, segir Sigurbjörg. „Ég svaraði um hæl og sagðist vera til og hafði síðan samband við þær Ólu og Ástu og við skráðum okkur á námskeiðið. Sjálf fór ég á nokkur Íslendingasagnanámskeið með Jóni Bö á vegum Endurmenntunar hér á árum áður og þá með systur minni, föður mínum og Hildi“, heldur Sigurbjörg áfram.

Kleinur í frímínútum

„Í dag finnst okkur þessi námskeið alveg nauðsynleg, svo skemmtileg og fræðandi. Það er svo gaman að hlusta á kennarana. Við erum sjaldnast búnar að lesa textann fyrir tímann en það er alls ekki nauðsynlegt. Hildur tekur alltaf glósur en við hinar viljum frekar bara hlusta og fáum bara að sjá glósurnar hennar ef þarf“, segir Sigurbjörg létt í bragði og hrósar um leið kleinunum í frímínútum. 

Hver kennari með sinn sjarma

Þær stöllur gera alltaf eitthvað skemmtilegt fyrir fyrsta tímann á misserinu, halda nokkurs konar innritunarhátíð og fara þá t.d. út að borða og í bíó. Á lokadeginum er hefð hjá þeim að vera með smá útskrift sem felst einnig í því að gera sér dagamun. „Við fórum á nokkur námskeið hjá Magnúsi Jónssyni og einnig hjá Ármanni Jakobssyni og hlökkum til að kynnast Torfa Tuliníus í vetur. Þeir eru allir ólíkir en hver með sinn sjarma“, segir Sigurbjörg. Síðasta haust sóttu þær námskeið á morgnana, en þótti það dálítið snemmt, enda býr ein þeirra úti á Garðskaga og því nokkur spotti að keyra á Dunhagann. Núna stíla þær á þriðjudagskvöld. Þar sem námskeiðið er einnig haldið á miðvikudögum þykir ömmum, á bakvakt, þægilegt að hafa fleiri kosti upp á að hlaupa því þær geta ekki hugsað sér að missa af tíma. Þær voru ekki með s.l. vor og fannst mjög erfitt að missa af þeim tímum svo nú ríkir mikil tilhlökkun hjá vinkonunum að byrja aftur.

0